154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

heildarendurskoðun á þjónustu og vaktakerfi dýralækna.

44. mál
[16:27]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F):

Frú forseti. Ég flyt hér þingsályktunartillögu um heildarendurskoðun á þjónustu og vaktakerfi dýralækna. Flutningsmenn ásamt þeim sem hér stendur eru Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Oddný G. Harðardóttir, Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

Það er nú einu sinni þannig, frú forseti, að aldrei er góð vísa of oft kveðin. Þetta mál var áður flutt á 153. þingi og hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra að setja af stað vinnu við heildarendurskoðun á þjónustu og vaktakerfi dýralækna.“

Í greinargerðinni kemur það nokkuð skýrt fram hvers vegna svo sé, af hverju verið er að leggja fram þessa þingsályktunartillögu. Staðan er nú bara þannig að það gengur afskaplega illa að manna vaktir, bakvaktir sérstaklega. Það er ekkert einskorðað við landsbyggðina, það á sömuleiðis við um höfuðborgarsvæðið. Oft þarf að leita til annarra umdæma til að manna bakvaktir sérstaklega. Síðan getum við svo sem tekið skrefið svolítið lengra í þessu en í hinum dreifðari byggðum er kannski einn dýralæknir á vakt allan sólarhringinn með gríðarstórt svæði og það er enginn til að leysa hann af. Við þetta er ekki hægt að búa. Það er ekki hægt að bjóða skepnum upp á þetta og hvað þá dýralæknum og eigendum búfjárins. Því er mjög mikilvægt í þessu samhengi að matvælaráðherra fái Matvælastofnun til þess að fylgja þessu fast eftir og horfa þá sömuleiðis til annarra landa, nágrannalanda okkar, þar sem menn hafa sett af stað vinnu til að uppfylla þær kröfur sem við setjum fram. Þetta er fyrst og fremst dýravelferðarmál, þ.e. að við getum mannað vaktir dýralækna til þess að sinna veikum skepnum. Það er nú einu sinni þannig að það á sama við um blessuðu húsdýrin og mannfólkið, þau veikjast ekki bara milli átta og fjögur, og menn þurfa að vera tiltækir allan sólarhringinn til að geta sinnt veikum skepnum.

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja hér tímann neitt sérstaklega en vil benda á mikilvægi þessa, og mér finnst það endurspeglast töluvert í fjölda flutningsmanna sem koma úr þremur stjórnmálaflokkum hvað þetta varðar og þetta er hvatning sömuleiðis til matvælaráðherra að hvetja sína undirstofnun, Matvælastofnun í þessu samhengi, að koma þessu á á koppinn ef svo má segja, að við mönnum dýralæknavaktir, ekki bara bakvaktir heldur séum með dýralækna á vakt um allt land sem geta sinnt húsdýrum allan sólarhringinn.