154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

heildarendurskoðun á þjónustu og vaktakerfi dýralækna.

44. mál
[16:39]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að taka undir þessa þingsályktunartillögu, sem mér finnst vera mjög góð, enda eru þingmenn úr öllum flokkum, sýnist mér, á þessu. Ég held að það sé löngu orðið tímabært að þjónusta og vaktakerfi dýralækna verði endurskoðað með tilliti til margra þátta. Það hefur náttúrlega verið þannig í gegnum árin að skortur á dýralæknum á vissum svæðum hefur verið átakanlegur. Þjónustusvæðin hafa verið að stækka og þeim hefur verið að fækka. Við erum að tala um að kannski er einn dýralæknir að þjónusta svæði þar sem hann þarf kannski að fara 200–300 km á hverjum degi ef hann ætlar að sinna svæðinu sem slíku. Það er ekki bara það að dýralæknar séu að sinna neyðarþjónustu heldur er líka þetta eftirlit sem vantar svo mikið upp á. Við getum bara talað um dýralækna, við erum oft að hugsa þessar hefðbundnu búgreinar hjá okkur en það er ekki bara það heldur sinna dýralæknar t.d. laxeldi, bæði í sjó og á landi.

Það er mjög mikilvægt að við séum að skapa þannig umhverfi fyrir dýralækna að það sé fýsilegt fyrir ungt fólk að fara í þetta nám og að það skili sér svo heim aftur. Nú er þetta nám einungis erlendis enn þá og verður kannski eitthvað lengur en það þarf alla vega að vera þannig umhverfi að ungt fólk vilji sækja í þetta því að þetta umhverfi, og maður þekkir það — t.d. segjum eins og á Vestfjörðum þar sem hefur kannski verið einn starfandi dýralæknir, álagið er allt annað heldur en hægt er að rísa undir þegar þú ert nýkominn frá Ísafirði yfir á Barðaströnd og færð ákall um þjónustu inni í Ísafjarðardjúpi. Það er ekki hægt að sinna því eins og vel er á haldið og það sem undan þarf að láta er eftirlit með dýrahaldi þegar þeir eru kannski alveg uppteknir í bara að hjálpa dýrum, dýralækningum einungis.

Eins og hér stendur hafa stjórnvöld í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi öll farið í umfangsmikla vinnu við að greina vandann og þær áskoranir sem fylgja því að færri dýralæknar fáist í störf úti á landi. Það er þetta umhverfi sem ungt fólk lætur ekki bjóða sér lengur og það er líka náttúrlega hjá læknum sem eru inni á heilbrigðisstofnunum og eru að sinna okkur mannfólkinu orðið allt annað varðandi það hvað fólk lætur bjóða sér upp á. Við viljum hafa þessa þjónustu um allt land og ég held að það skipti miklu máli að við tökum undir þetta og reynum að hrinda þessu af stað. Vonandi fær þessi þingsályktunartillaga bara málefnalega umræðu inni í nefnd og skilar sér þaðan út og við getum öll tekið undir hana hér í þingsal.