154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

heildarendurskoðun á þjónustu og vaktakerfi dýralækna.

44. mál
[16:43]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langaði bara að segja örfá orð um þessa ágætu tillögu. Ég er ein af flutningsmönnum hennar ásamt hv. flutningsmanni, Þórarni Inga Péturssyni. Ég held að staðan á dýralæknunum snúist um hluti sem við könnumst við annars staðar á vinnumarkaði. Við ræðum hér oft um mönnun heilbrigðisstétta og dýralæknar eru auðvitað að sinna heilbrigði dýra og velferð. Við þurfum að koma því þannig fyrir að ekki bara nægilega margir mennti sig í faginu heldur líka að fólk vilji starfa við það, koma til baka og starfa við það. Svo hefur það nú reyndar, þótt það sé óskylt þessu, gerst kannski nokkuð oft í okkar litla samfélagi að dýralæknar hafa tekist á hendur önnur störf en í sínu fagi. En það er önnur umræða.

Það er hins vegar mjög mikilvægt að skoða þetta með kynjagleraugunum vegna þess að dýralæknastéttin er eins og aðrar stéttir að fyllast af konum. Einu sinni voru þetta eiginlega allt karlar og þeir gátu unnið allan sólarhringinn af því að heima var kona sem sá um allt saman. Það sama var með venjulega héraðslækna. Það var bara kerfi sem við bjuggum til og það gekk ágætlega af því að í rauninni voru tveir í vinnunni en annar þáði kaupið. Þetta er auðvitað staða sem sérstaklega yngri kynslóðir og bara nýjar kynslóðir á vinnumarkaði á Íslandi sætta sig ekki við og vilja ekki vinna undir. Við þurfum að skilja það og hið opinbera þarf auðvitað að skilja það sem atvinnurekandi. Það eru mjög margir sem vinna hjá hinu opinbera, hvort sem það er ríki eða sveit, og þess vegna held ég einmitt að þetta með vinnutímann og vaktaskipulagið og starfsaðstæður almennt sé algjört lykilatriði í þessu mikilvæga máli. Ég vildi bara koma upp til að setja þetta í þetta samhengi.

Það er líka þannig að vægi landbúnaðar, eins og hann var einu sinni stundaður, hefur minnkað í þessu öllu. En það koma önnur verkefni. Fiskeldi er eitt slíkt verkefni og einnig eftirlit í sláturhúsum. Það minnir mig reyndar á atriði sem minnst var á áðan um innleiðingu EES-reglna, af því að okkur hættir til að gleyma eða það ferst fyrir að biðja um undanþágur eða nýta þær leiðir sem hægt er að nota í þeim samningi til að laga löggjöfina að aðstæðum á Íslandi. Þá erum við einfaldlega ekki að gæta hagsmuna okkar nógu vel gagnvart þeim samningi og það eru til of mörg dæmi um að það hafi farið þannig.

Svo hefur líka orðið sprenging í fjölda gæludýra hér á landi í borg og bæ og sveit. Það er að mörgu leyti skiljanlegt að þau sem hafa menntað sig sem dýralæknar eða dýrahjúkrunarfræðingar velji þann kost að geta unnið frá 8–4 eða 8–5 í sínum heimabæ, sinnt þar gæludýrum og það er nóg að gera allan daginn. En það er auðvitað annað starf og kannski erfiðara að vera einmitt í stórgripalækningum eða á ferðinni milli bíla til að sinna skepnunum. Þannig að allt spilar þetta saman, held ég. En fyrst og fremst þarf hið opinbera að huga að starfsaðstæðum og vinnuálagi í stéttinni. Svo auðvitað verðum við að nýta betur, og ég veit að hv. flutningsmaður, Þórarinn Ingi Pétursson, er líka með tillögu um það, ívilnanir sem hægt er að nýta hjá Menntasjóði til að sjá til þess að mönnunin sé í lagi. Ég vildi bara bæta þessum setningum í þetta púkk og ég vona sannarlega að tillagan fái umfjöllun og afgreiðslu úr hv. atvinnuveganefnd, sem hún fer líklega í.