154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

Hjúkrunarrými og heimahjúkrun.

[11:20]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða hér hjúkrunarheimili og ég spyr mig að því: Er eðlilegt að dæma einhvern í hálfgert fangelsi inni á hjúkrunarheimili? Svarið er auðvitað nei. Samt er verið að dæma einstakling, rúmlega fertugan, inn á hjúkrunarrými þar sem meðalaldurinn er 85 ára, tvöfalt hærri. Þetta er auðvitað gróft ofbeldi gagnvart einstaklingi. En þetta er ekki bara einstaklingur. Árið 2022 voru rétt um 150 ungir fatlaðir einstaklingar vistaðir á hjúkrunarheimilum. Hringir það engum viðvörunarbjöllum? Er einhver hér inni um fertugt sem myndi vilja láta nauðungarvista sig eða jafnvel flytja hreppaflutningum á hjúkrunarheimili? Menn gleyma oft afleiðingunum af því. Hvaða afleiðingar hefur það að taka fertugan fatlaðan einstakling og setja á hjúkrunarheimili? Ef hann á íbúð þá missir hann íbúðina. Ef hann er á örorkubótum þá missir hann örorkubæturnar. Hann fer á dagpeninga. Hann er sviptur fjárræði. Hann er ekki bara sviptur sjálfræðinu heldur fjárræðinu líka. Þetta er til háborinnar skammar. Við erum með 150 einstaklinga þarna inni á sama tíma og við erum með yfir 100 eldri borgara á sjúkrahúsi. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að við sjáum til þess að þessir fötluðu einstaklingar fái þá þjónustu sem þeir eiga skilið og séu ekki á hjúkrunarheimilum. Með því að losa þá út af hjúkrunarheimilum — eins og kom hérna fram áðan kostar lega á sjúkrahúsi 70 milljónir á einstakling á ári, þá dytti það út. 150 einstaklingar; það er verið að borga 10 milljarða. Þetta er ekki eðlilegt..