154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

Hjúkrunarrými og heimahjúkrun.

[11:22]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu. Hún er mjög mikilvæg og á alltaf rétt á sér. Mér finnst við undanfarin tíu ár alltaf vera að tala um sömu hlutina. Við þurfum að fara nýjar leiðir í því hvernig eldri borgarar geta varið ævikvöldi sínu. Við þurfum auðvitað að láta fjármögnun úrræða taka mið af þeirri þjónustuþörf sem er fyrir hendi og við þurfum að skapa nýjar og fjölbreyttari leiðir til að taka á móti þessu fólki. Það eru áratugir síðan Norðurlöndin hættu að eyða öllum þessum peningum í steinsteypu og menn fóru að finna ný úrræði. Hér hefur verið minnst á heimahjúkrun, nýsköpun í henni er gríðarlega mikil. Ég held að við flest sem hér erum inni höfum margoft sagt það úr þessum stól að við þurfum að fara þessar leiðir en við erum einhvern veginn alltaf svo föst í því að gera áætlanir um að byggja hús úr steinsteypu. Þá kemur á móti, eðlilega, að minna er lagt í heimahjúkrun, sem er náttúrlega lykillinn að þessu og auðvitað forvarnir gagnvart eldra fólki. Við sjáum þau verkefni sem hér hefur verið farið í, eins og Janusarverkefnið sem hefur gjörbreytt lífi fjölda fólks, fjölda eldri borgara, gjörbreytt þeirra lífsstíl og lífsleikni og þátttöku í lífinu með því að mæta á æfingar og fylgjast með hvernig fólkinu líður. Það sem stendur upp úr í því er að ríkið hagnast á þeim kostnaði sem sveitarfélögin leggja í þau verkefni. Ég held að við ættum að sameinast um það, við í þessum sal, með ráðherranum, að standa vörð um endurhæfingu og standa vörð um verkefni sem eins og Janusarverkefnið hafa gjörbreytt lífi margra eldri borgara, gjörbreytt því, lengt ævikvöldið en kannski fyrst og fremst gert það bærilegra, gert það betra.