154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

Hjúkrunarrými og heimahjúkrun.

[11:41]
Horfa

Ragnar Sigurðsson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa þörfu og góðu umræðu. Hlutfall eldri borgara mun hækka ört á næstu árum gangi mannfjöldaspár eftir. Til að mæta þessari áskorun er gert ráð fyrir því að byggja um 400 hjúkrunarrými á næstu fimm árum. Þeim áætlunum þarf svo að fylgja eftir með fjölbreyttum úrræðum til að mæta þörfum stækkandi hóps eldri borgara landsins.

Þjónusta við eldri borgara hér á landi er víða framsækin og góð og til framtíðar þarf að huga að þeim valkostum sem tryggja einstaklingum með hjúkrunarþörf fjölbreytt úrræði. Efling heimaþjónustu, dagþjónustu og heimahjúkrunar mun gera fólki kleift að búa lengur á sínum heimilum og fá viðeigandi þjónustu þar. Ýmis tækifæri felast í aukinni samþættingu þjónustu við elstu aldurshópana. Heimaþjónusta er víða á vegum sveitarfélaga, heimahjúkrun á vegum heilbrigðisumdæma og hjúkrunarheimili ýmist á vegum heilbrigðisstofnana, sveitarfélaga eða hlutafélaga. Mikilvægt er að efla samvinnu allra þessara aðila í öldrunarþjónustu með það fyrir augum að gera hana skilvirkari, hagkvæmari og betri. Þjónustan, mannauðurinn og þekkingin er öll til staðar og með aukinni samþættingu getum við útvíkkað starfsemina og veitt persónubundna þjónustu.

Unnið er að slíkri samþættingu, m.a. á Austurlandi þar sem til skoðunar er samvinna milli Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Fjarðabyggðar um að koma stoðþjónustunni, þ.e. heimaþjónustu, dagþjónustu og heimahjúkrun, á eina hendi með einum stjórnanda og undir einum og sama fjárhagsrammanum. Ég bind miklar vonir við að það skref verði farsælt og dæmi um gott spor í verkefninu Gott að eldast.

Þá hafa verið stigin stór skref í að efla fjarheilbrigðisþjónustu innan heilbrigðisstofnana í heimahjúkrun og með aðgengi að tæknilausnum í heimahúsum. Sú tækni gefur skjólstæðingum kost á að sleppa við að fara um langan veg til að sækja þjónustu, nú eða þá fagaðilanum sem ella þarf að ferðast stofnana á milli til að veita þjónustu sem er bæði tímafrek og kostnaðarsöm. Með fjarheilbrigðisþjónustu erum við að færa heilbrigðiskerfið nær skjólstæðingum.