154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

Hjúkrunarrými og heimahjúkrun.

[11:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég kem hérna úr fjárlaganefnd. Fjárlaganefnd hefur fjallað um þessi málefni ansi oft, einnig þegar hæstv. heilbrigðisráðherra var formaður fjárlaganefndar, og það er alltaf sama sagan, alltaf sama sagan í öll þessi ár sem ég hef verið þar, á öllum þeim fundum sem þar hafa verið haldnir, alltaf sama sagan. Það er enn vandi. Við vitum hver hann er. Við vitum umfangið á honum af því að við vitum hver aldursþróun þjóðarinnar er og vitum kostnaðinn við þjónustuna eins og hún er og eins og hún verður. En samt er ekki gert ráð fyrir þeim kostnaði í fjármálaáætlun. Hvað er það annað en að ljúga að þinginu um afkomuþróun ríkisins? Ef rekstrarkostnaðurinn, sem á að koma vegna þess að það er verið að byggja hjúkrunarheimili, er ekki inni í fjármálaáætluninni þá þýðir það að afkoma ríkisins er einfaldlega þeim mun betri af fyrirsjáanlegum kostnaði. Þessi málaflokkur er nákvæmlega jafn mikilvægur og grunnskólaþjónustan og leikskólaþjónustan sem við veitum á hinum enda lífsins, en einhverra hluta vegna, eftir öll þessi ár, eftir alla þessa fundi í fjárlaganefnd og víðar í þinginu, þá er ekkert verið að segja nema: Það er eitthvað í gangi. Það eru enn þá einhverjar nefndir að skoða hitt og þetta. En við vitum samt umfangið á vandanum. Það er fyrirsjáanlegt með áratugafyrirvara hversu margir eru að fara að verða gamlir, það er ekkert sem á að koma okkur á óvart í þessu. Við vitum hversu mikið pláss þarf. Það þarf bara ákvörðun ríkisins, ákvörðun stjórnvalda um nýtt fyrirkomulag eins og heimaþjónustu. Við vitum líka hvað það kostar en það er ekki sett á blað og þangað til það er sett á blað þá erum við bara í lausu lofti og allir sem þurfa á þjónustunni að halda eru líka í lausu lofti. Ég kalla eftir að ráðherra geri eitthvað í þessu. Hann kann á þetta sem fyrrverandi formaður fjárlaganefndar. Hann þarf líka að gera eitthvað í þessu sem ráðherra.