154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

Hjúkrunarrými og heimahjúkrun.

[11:46]
Horfa

Elva Dögg Sigurðardóttir (V):

Ég þakka hv. þm. Kristrúnu Frostadóttir fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Ég hef áhyggjur af því að við séum of föst inni í hugmyndarömmum sem eru okkur kunnugir og eigum erfitt með að hugsa lengra en það og það muni leiða til þess að við munum ekki ná að þjónusta fólk á efri árum eins og það á allan rétt á. Í því ljósi vil ég tala aðeins um samfélagslega nýsköpun. Eitt dæmi um slíkt verkefni sem ég hef tekið þátt í síðustu mánuði í Danmörku kallast, með leyfi forseta, Elderlearn. Þar fer ég í heimsókn til 86 ára gamallar danskrar vinkonu minnar þar sem við eigum góða stund saman þar sem ég læri dönsku og hún fær félagsskap. Þetta tvennt tvinnar saman samfélagslegar áskoranir sem við stöndum frammi fyrir, annars vegar þann einmanaleika sem við vitum að eldra fólk getur verið að takast á við og hins vegar eflingu á tungumálakunnáttu fyrir fólk sem flyst til landsins. Þjóðin eldist hratt og það er nauðsynlegt að nálgast málaflokkinn frá mörgum hliðum enda eru eldri borgarar svo langt frá því að vera einsleitur hópur. Margir eru frískir og fjörugir og fullfærir um að sjá um sig sjálfir, aðrir eru sæmilega frískir og þurfa frekar á félagslegri aðhlynningu að halda en heilbrigðisþjónustu. Við megum ekki líta á samfélagsverkefni sem einhvers konar krúttlegar hugmyndir. Þetta eru raunverulegar lausnir sem geta tekist á við hinar ýmsu hindranir og áskoranir sem við erum alltaf að reyna að finna lausnir við. Við þurfum að bregðast strax við því að verkefnið stækkar með hverjum deginum. Við þurfum að komast út úr gömlu römmunum og fagna bæði einkaframtaki og hugmyndum fólksins í samfélaginu því að það er ekki ein lausn fyrir öll. Þess vegna þurfum við nýsköpun með okkur til að takast á við áskoranir framtíðarinnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)