154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[13:20]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Við höfum stundum glímt við það hér á þinginu að það er ekki nægilega vandað til þingmála. Það hafa verið settar um það alveg sérstakar leiðbeiningar í Stjórnarráðinu hvernig eigi að haga sér í þeim efnum og er ekki vanþörf á oft á tíðum að bregðast við. Það er alveg ljóst að þeir sem hafa staðið að samsetningu þessa máls sem hér er til umræðu hafa ekki lagt sig fram um að vanda til verka, ekki að það komi á óvart þegar sést hver framsögumaður er í þessu máli. En það er auðvitað sárt að sjá margt ágætisfólk skrifa undir þetta án þess að hafa í rauninni kíkt á innihaldið af því að slík er upplýsingaóreiðan í þessu. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt fyrir okkur hér í þinginu og fyrir þjóðina og þá sem eru að fylgjast með okkur hér að geta treyst því að það sé einhver innistæða fyrir þeim upplýsingum sem við setjum á blað, það sé vandað þannig til verka að þær staðreyndir sem teknar eru til eigi sér einhverja stoð í raunveruleikanum.

Það er farið um víðan völl í greinargerð með þessu máli og til að mynda kemur hér fram að samkvæmt þeirri skýrslu sem MAST gaf út standi að veiðiaðferðir Hvals hf. standist engan veginn kröfur laga um dýravelferð. Þetta er einfaldlega röng fullyrðing. Niðurstaðan var einmitt sú að veiðarnar brytu ekki gegn lögum um velferð dýra. Á heimasíðu MAST segir, með leyfi forseta:

„Stofnunin telur hins vegar að við veiðarnar hafi verið beitt bestu þekktu aðferðum miðað við þær aðstæður sem þessar veiðar eru stundaðar við og því hafi ákvæði um veiðar í lögum um velferð dýra ekki verið brotin.“

Hér er því haldið öðru fram sem er auðvitað alveg rangt. Svo kemur síðar í þessum kafla í greinargerðinni þessi setning:

„Aldrei myndi líðast að sláturhús murkuðu lífið úr kúm, ám eða svínum klukkutímum saman.“

Hér er sem sagt verið að bera saman veiðar á villtum dýrum og slátrun á dýrum sem eru leidd til slátrunar í sláturhúsum. Ég veit ekki hvort þetta er gert af vanþekkingu eða hvað. En auðvitað er það grundvallaratriði í þessu máli að hér er um veiðar á villtum dýrum að ræða þar sem beitt er bestu þekktu aðferðunum. Reyndar hafa þessar aðferðir þróast mikið með tímanum og fram eru komnar núna nýjar rannsóknir sem leiða fram að beita rafmagni við slátrunina, sem var búið að undirbúa að yrði notað í sumar en ekki hefur fengist leyfi Matvælastofnunar til að prófa það við veiðarnar núna í september, þróa þetta áfram. Þetta er þó viðurkennd aðferð til jafns við sprengiskutul í samþykktum Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem í eiga sæti á annað hundrað þjóðir heims. Alþjóðahvalveiðiráðið viðurkennir þetta sem veiðiaðferð til jafns við sprengiskutul.

Þetta er auðvitað villan í þessu öllu saman, að vera að bera þetta saman við veiðar á villtum dýrum. Það þekkja það allir sem hafa stundað veiðar á villtum dýrum að það tekst ekki alltaf að drepa dýr í fyrsta skoti. Þannig er þetta um allan heim. Þannig eru veidd hundruð þúsunda ef ekki milljónir dýra í Evrópu, t.d. yfir 500.000 villisvín í Þýskalandi á hverju ári og auðvitað særast dýr þegar um er að ræða villtar veiðar á villtum dýrum, alveg eins og gerist hér á Íslandi í hreindýraveiðum, fuglaveiðum og öðru. Þetta þekkja allir sem hafa stundað veiðar. Auðvitað er þetta bagalegt en þetta er fylgifiskur þess að stunda veiðar á villtum dýrum. Það vill svo til að við erum ekki eina þjóðin sem er að veiða hvali með þessari sömu tækni, Norðmenn eru ekki að velta þessu fyrir sér, eins og kom fram hjá forsætisráðherra samfylkingarinnar í Noregi þar sem hann sagði að þeim sem væru að gagnrýna þessar sjálfbæru veiðar Norðmanna kæmu þær bara ekkert við. Þeir væru betur í stakk búnir til að meta aðstæður og sjálfbærni í þessum veiðum eins og í annarri nýtingu á náttúruauðlindum sínum.

Svo er vitnað hér til fagráðsins í greinargerðinni. Það er hægt að segja um þetta fagráð að lögfræðilegt álitaefni var lagt fyrir ráðið sem samanstóð af fólki sem hafði í rauninni ekki þekkingu til að leysa úr slíku álitaefni, var ekki á verksviði þess að gera það og málsmeðferðin sem þau beittu var í bága við lög. Í fyrsta lagi var einn nefndarmaður vanhæfur. Hann hafði lýst yfir skoðun sinni á álitaefninu opinberlega stuttu áður og það telst til vanhæfis samkvæmt stjórnsýslulögum. Í öðru lagi braut fagráðið gegn 3. mgr. 5. gr. laga um velferð dýra þar sem kveðið er á um að um málsmeðferð fyrir nefndinni gildi stjórnsýslulög. Hvalur hf. fékk ekki andmælarétt eins og félagið á rétt á samkvæmt stjórnsýslulögum. Það er ekki hægt að taka mark á niðurstöðum stjórnvalds sem þverbrýtur málsmeðferðar- og hæfisreglur í svona málum.

Lög um velferð dýra gera þá kröfu í 27. gr. að ávallt skuli staðið að veiðum þannig að það valdi dýrunum sem minnstum sársauka og aflífun þeirra taki sem skemmstan tíma. Bæði MAST og fagráðið eru sammála um að aðferðirnar sem Hvalur beitir eru þær bestu sem til eru. Af því leiðir að veiðiaðferðirnar standast lögin enda gera þau bara kröfu um að bestu mögulegu aðferð sé beitt. Það er búið að reyna að þróa þessa aðferð og nú er hægt að bæta jafnvel enn betur með því að nýta saman sprengiskutul og rafmagn og það eru reyndar margir sem telja að það þurfi ekki sprengiskutul í framtíðinni heldur sé hægt að gera þetta bara á forsendum nýrra aðferða og þá sérstaklega með rafmagni.

Hér er einnig haldið fram, sem er hluti af upplýsingaóreiðunni, að það hafi reynst erfitt að koma kjötinu í verð, þeim afurðum sem fluttar eru til Japans, og þrátt fyrir mikla herferð til að auka neyslu á hvalkjöti bendi margt til þess að það rati í hundafóður. Þetta er auðvitað algerlega úr lausu lofti gripið. Þetta hefur verið áróður þeirra samtaka á alþjóðavettvangi sem hafa verið að reyna að sverta hvalveiðar, að þetta sé með þessum hætti. Staðreyndin er sú að eftirspurn eftir þessu kjöti hefur aukist mjög. Auðvitað tekur tíma að starta aftur markaði með afurðir sem hafa ekki verið á markaði mörg ár, þó það nú væri, en það hefur tekist. Eftirspurnin er góð, sérstaklega eftir að framboðið minnkaði í Japan. Eftir að þeir hættu veiðum sínum í Suður-Íshafinu og fóru eingöngu að stunda veiðar á sínum heimamiðum, þá hefur dregið úr framboði og eftirspurnin er mikil og verðin eru góð. Menn eru í þessum veiðum og viðskiptum til að hafa út úr því eins og í annarri atvinnustarfsemi.

Því hefur gjarnan verið haldið fram að það sé mikið tap á þessum rekstri. Það eru tiltekin hér einhver síðustu tíu ár og þau skoðuð í því sambandi. Hvernig ætti nú annað að vera en að það væri tap á rekstri þar sem Matvælastofnun gaf ekki út vinnsluleyfi og var ekki hægt að veiða hval 2019, 2020 og 2021 vegna þess að kerfið var að þvælast fyrir? Ekki kaupendurnir, það voru engar kröfur frá þessum erlendu mörkuðum sem biðu eftir afurðunum heldur var kerfið hér með einhverjar reglur sem þvældust fyrir. En áfram var starfsemin, áfram var uppbyggingin, áfram var öll endurnýjun á tækjabúnaði, fjárfestingar, mannskapur í vinnu allt árið til að halda þessu við. Svo er farið að tala um að það sé eitthvert stórkostlegt tap af þessu. Menn gleyma alveg forsendunum fyrir þessum rekstri, að menn eru að horfa í þessum rekstri eins og oft er til lengri tíma, ekki eins og sumir í pólitík sem horfa bara til skemmri tíma og sveiflast eins og stráið í vindinum eftir því hvernig þeir eru að reyna að veiða atkvæði heldur eru þeir að horfa til lengri tíma og fjárfestingarnar bera þess merki.

Virðulegur forseti. Saga mótmæla gegn hvalveiðum er löng og ég þekki hana ágætlega. Þegar hvalveiðibannið tók gildi 1986 eftir að hafa verið samþykkt 1983 á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins átti bannið að gilda frá 1986–1990, meðan menn væru að ná utan um þessa stofnstærðir í heiminum vegna þess að það var yfirgangur og stofnar voru víða komnir í hættu. Bannið er enn í gildi en við erum bara ekki bundin af því vegna þeirra reglna sem gilda í Alþjóðahvalveiðiráðinu og þeirra fyrirvara sem við höfum sett þar. Við erum ekki bundin af því frekar en Norðmenn, Japanir og Rússar og síðan eru frumbyggjaveiðar í Grænlandi, í Alaska og á karabísku eyjunum. Þetta er mjög víða. Aðferðin er víðast hvar sú sama og við notum og veiðarnar umtalsvert meiri heldur en eru hér. En það hefur einhvern veginn verið eftirsóknarvert að ráðast sérstaklega að Íslandi, maður sér ekki mikið til þessara aðila í öðrum löndum. Það var orðað hér áðan í ræðu framsögumanns að þjóðir heims væri á móti þessu. Innan Alþjóðahvalveiðiráðsins þar sem eru á annað hundrað þjóðir, ef ég man rétt, talan er alla vega eitthvað í kringum það, hefur það skipst til sirka helminga hvort þjóðir eru fylgjandi hvalveiðum eða andvígar hvalveiðum. En það þarf tvo þriðju hluta til afnema hvalveiðibannið. Það hefur ekki tekist. Þannig að það er ekki eins og það sé eitthvert undantekningaratriði að þjóðir séu fylgjandi hvalveiðum.

Þessi mótmæli á sínum tíma snerust um að veiðarnar myndu eyðileggja alla fiskmarkaði okkar. Það voru SA og fleiri fyrirtæki sem héldu því fram að það myndi eyðileggja alla fiskmarkaði okkar á þessum fyrstu árum þar sem var verið að ræða það að fara aftur af stað í hvalveiðar. Síðan tók ferðaþjónustan við. Ekkert af þessu hefur gengið eftir. Þessi sömu samtök og við erum hér með þátttakendur frá í svokölluðum mótmælum í dag — ef það er hægt að kalla það það, fólk sem er á launum hjá erlendum samtökum sem kemur hingað og einu viðtölin við mótmælendur fara fram á ensku af því að það eru engir Íslendingar til að tala við í þeim efnum í fjölmiðlum — þau komu hingað með fólk og fóru til að mynda í herferð gagnvart veitingastöðum sem voru með hvalkjöt á matseðlinum, sögðust ætla að koma í veg fyrir að fólk færi að heimsækja þá, draga úr viðskiptum. Þetta hefur aldrei haft nein áhrif neins staðar. Þetta hefur allt verið innstæðulaus áróður og ekkert af þessu gengið eftir. Það átti að slökkva á ferðaþjónustunni okkar, eyðileggja ímynd landsins. Við sjáum öll hvernig þetta hefur gengið eftir. Og svo einhver samanburður á því sem er bara ósmekklegur af hálfu ferðaþjónustunnar, að leggja það saman að nokkur þúsund ferðamenn skili sömu tekjum — þetta er auðvitað ekki boðlegt þegar atvinnugreinar kjósa að ráðast svo að annarri atvinnugrein.

Það er af mörgu að taka í þessu, virðulegi forseti, og hér er ég búinn að rekja kannski það helsta. Auðvitað komum við hér að atvinnufrelsinu sem nýtur verndar 75. gr. stjórnarskrárinnar og hún hefur væntanlega hefur verið brotin með þessum ákvörðunum um að banna hvalveiðar í sumar, og komum einnig að eignarréttinum sem nýtur verndar í 72. gr.

Í stuttu máli er þetta tekið saman í því að við erum ekki eina þjóðin sem er að veiða hval. Þá er ég að tala um stórhveli. Auðvitað eru smáhveli ekki talin með, við erum bara að tala um það sem er skilgreint innan Alþjóðahvalveiðiráðsins sem stórhveli. Það eru Norðmenn, Rússar, Japanir og fleiri þjóðir sem ég taldi hér upp áðan sem veiða þessa hvali með sömu tækni og við. Það er stöðugt verið að reyna að þróa þessa tækni alveg eins og verið er að reyna að þróa aðrar veiðiaðferðir á villtum dýrum hvar sem þær eru stundaðar. Það er mikilvægt og við eigum að leggja okkur fram um það og setja stífar kröfur á þau fyrirtæki og einstaklinga sem stunda þessar veiðar um að reyna að gera það með sem mannúðlegustum hætti. Þetta jafnvægi í nýtingu lífríkisins er ákveðin grundvallarforsenda, að halda einhverju jafnvægi í nýtingu á nytjastofnum lífríkisins. Það þekkja þeir bændur sem eru hér í salnum að ef þú ert með stóðið allt of stórt í litlu hólfi þá hefur það afleiðingar og verður ekki öðrum beitt þar. Allar okkar veiðar eru yfirfarnar af Alþjóðahvalveiðiráðinu, vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins sem kom alltaf saman einu sinni á ári, ég veit ekki hvort það er enn þannig eða hvort það er annað hvert ár í dag. Þar eru yfir 100 vísindamenn frá öllum löndum sem eru þátttakendur. Stofnstærðir og annað sem við förum eftir er allt viðurkennt af þessum alþjóðlegu samtökum. (Forseti hringir.)

Það er ekki þannig, eins og oft er haldið fram af þessu fólki sem hefur sig frammi við að berjast gegn hvalveiðum, að stofnarnir séu í útrýmingarhættu. Það er enn ein upplýsingaóreiðan. (Forseti hringir.) Við stundum þetta samkvæmt öllum ströngum reglum alþjóðasamfélagsins og höfum auðvitað fullan rétt á að nýta auðlindir hafs í þessum efnum sem öðrum (Forseti hringir.) ef við gerum það með sjálfbærum hætti.