154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[14:47]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Áður en ég kem að ágætu andsvari frá hv. þingmanni vil ég geta þess að Matvælastofnun getur haft einhverja þá hugmynd að eitthvað sé ekki í anda laganna eða í markmiðum laganna. En ef það hefði verið svo að Matvælastofnun hefði talið að lög væru brotin þá bar henni að grípa til aðgerða eins og lög kveða á um. Henni bar þá að fara í stjórnsýslumál og opna það og hefja rannsókn á málinu með einhverri niðurstöðu í samræmi við stjórnsýslurétt. Það gerði stofnunin ekki. Það er ekkert sem kom fram á sínum tíma sem benti til þess að lög um dýravelferð hefðu verið brotin.

Þá kemur að spurningunni: Er dýravelferð almannahagsmunir? Já, við getum gefið okkur að hún sé almannahagsmunir út frá þeirri löggjöf sem við höfum sett okkur. Það eru mikilvægar meginreglur í lögum um dýravelferð sem okkur ber að fara eftir. Þetta eru mikilvægar hátternisreglur. Þetta er meginreglan sem á sér stað í 27. gr. laga um dýravelferð. Þar er einfaldlega kveðið á um að ekki skuli valda dýri óþarfri þjáningu þegar verið er að drepa dýrið — ekki óþarfa þjáningu. Þetta er löggjöf sem snýr að manninum, hvernig við komum fram við náttúruna og hvernig við högum okkur gagnvart náttúrunni. Þetta snýr ekki að því að við ætlum að passa upp á öll dýr jarðarinnar, öll dýr merkurinnar eða hvert einasta stingandi strá eða hvert einasta tré. Þetta er hátternisregla sem miðar að því hvernig við bæði umgöngumst hvert annað og umhverfið í kringum okkur.