154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024--2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

182. mál
[14:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Smá um húsnæðismál og þá lýðfræðilegu veikleika sem fjallað er um í markmiðunum, þar sem markmiðið er að hinn svokallaði stuðull lækki ekki eða hækki ekki miðað við hvaða lýðfræðilegu veikleika er verið að tala um. Þar er m.a. verið að tala um hlutfallslegan fjölda íbúa á hverju landsvæði. Það er í rauninni búist við því að hann breytist ekki eða alla vega lækki ekki með tilliti til landsbyggðarinnar þannig að þar fækki á kostnað höfuðborgarsvæðisins. En það sem við erum að sjá eru gríðarlega miklar auknar kröfur, sérstaklega á t.d. Reykjavíkurborg, að byggja og byggja. Það þýðir að sjálfsögðu að þá flytja allir í húsin sem eru byggð í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu. Það þýðir að minna verður um húsnæði úti á landi sem fólk getur flutt í og þá breytist óhjákvæmilega þessi stuðull. Einhverra hluta vegna er það stefna stjórnvalda að viðhalda sama hlutfalli íbúa á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, en það nær ekki til þess hvar húsnæðið er byggt. Það er sem sagt ekki nægilega mikið byggt á landsbyggðinni með tilliti til höfuðborgarsvæðisins sem mun óhjákvæmilega breyta þessum hlutföllum og þar af leiðandi munu markmiðin ekki nást.

Ég spyr því hæstv. innviðaráðherra: Hvenær förum við að sjá almennilega húsnæðisstefnu sem tekur tillit til ekki bara þeirrar fólksfjölgunar sem er hérna á höfuðborgarsvæðinu heldur líka á landsbyggðinni og á Íslandi?