154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024--2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

182. mál
[14:56]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er með nokkurri ánægju sem við tökum þessa þingsályktunartillögu til umfjöllunar. Mig langar til að hæla ráðuneytinu fyrir að hafa hér bæði vandað undirbúninginn með framlagningu grænbókar og hvítbókar og ég á þá von á því að afurðin sem við höfum í höndum njóti nokkuð víðtæks stuðnings meðal sveitarfélaganna. Það er þó tvennt í aðgerðaáætluninni sem ég átta mig ekki alveg á og kannski er það bara þekkingarskorti mínum um að kenna.

Hið fyrra varðar endurskoðun tekjustofnanna sem er þriðja atriðið í aðgerðaáætluninni, hafi ég lesið þetta rétt, sem á að ljúka í vetur 2023/2024. Eins og við öll vitum er þetta algjört grundvallaratriði og ég held að við séum nokkuð sammála um það hér í þessum sal að við viljum styrkja starf sveitarfélaganna þannig að þau geti sinnt sínum verkefnum með þeim hætti að sómi sé að og eins og við öll þekkjum veita sveitarfélögin yfirleitt betri þjónustu í nærsamfélaginu heldur en hið stóra ríki. En hvar standa viðræður um endurskoðun tekjustofna? Kannski heyrði ég ekki allt af því sem hæstv. ráðherra sagði í sinni framsögu, en er það svo að fulltrúar ríkisins og fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga séu enn að takast á um atriði sem hafa verið í umræðunni lengi, um það hvort nýir tekjustofnar séu í sjónmáli fyrir sveitarfélögin eða öðruvísi nýting en við höfum séð til þessa? Ég held að það sé mjög mikilvægt að fá stöðuna á því í samtalið hér á hinu háa Alþingi svo að við áttum okkur á stöðunni.