154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024--2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

182. mál
[15:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Hv. þingmaður lýsir hérna fortíðarsamfélaginu. Það er alveg rétt að það var stóriðjan sem í rauninni kom öllu þessu af stað en það er ekkert endilega staðan í dag eða í framtíðinni. Þess vegna nefndi ég hversu hátt hlutfall stóriðjan er að nota af orkunni hérna á Íslandi, miklu hærra hlutfall heldur en í öðrum löndum sem við viljum á einhvern hátt bera okkur saman við. Við höfum í rauninni farið fram úr okkur hvað stóriðjustefnuna varðar. Vissulega þurfti að koma virkjanaframkvæmdum og dreifingu raforku á legg og þar voru engir aðrir í boði þegar byrjað var en staðan er allt önnur í dag. Til náinnar framtíðar ættum við, af því að gæði náttúrunnar eru takmörkuð, það er ekki óteljandi orka í fallvötnum og þess háttar, að fara að huga að ýmsu öðru, mögulega kannski frekar sjávarfallavirkjunum og þess háttar. Það er alveg hægt að fara í meiri orkuöflun, tvímælalaust, en hlutfallið sem við erum að glíma við með tilliti til stóriðjunnar og til loftslagsaðgerða og losunar er eitthvað sem við þurfum að taka dálítið alvarlega. Við náum því ekki á nægilega skömmum tíma nema með því að taka stóriðjuna dálítið til baka niður í eðlilegt hlutfall í hagkerfi Íslands. Við búum einmitt við þessa fákeppni hér á Íslandi. Það eru fáir stórir aðilar sem hafa svo rosalega mikil áhrif á það hvernig efnahagur Íslands sveiflast, einmitt af því að þeir eru svo stórir.

Við erum með dreifinguna sem okkur vantar. Til að efla byggðirnar, því að þetta er nú einu sinni tillaga til þingsályktunar um það, þá ættum við einmitt að minnka áhættu okkar sem felst í þessu rosalega háa hlutfalli sem stóriðjan fær og dreifa þessu betur til þeirrar framleiðslu sem við þurfum úti um allt land.