154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024--2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

182. mál
[16:12]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hvað varðar orð hv. þingmanns um samráðið þá gleður það mig mjög mikið að heyra þetta. Ég fylgdist með grænbókinni og síðan hvítbókinni og þetta gengur auðvitað í gegnum samráðsferli en hins vegar vona ég að það verði eftirfylgni með því sem sveitarfélögin lögðu fram í þessu samráði. Þegar kemur að því að framkvæma þessar einstöku aðgerðir eða einstaka þætti þessarar aðgerðaáætlunar þá mun væntanlega koma til þess að það verði lögð fram lagabreyting og þar af leiðandi vona ég að samráðinu verði haldið áfram þegar kemur að stærsta þættinum í þessari aðgerðaáætlun og það er bara að lögfesta þessar breytingar sem eru að fara að eiga sér stað, sem ég tel líka margar hverjar vera bara mjög jákvæðar og til bóta. Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um tekjurnar sem fara í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga þá finnst mér Jöfnunarsjóður sveitarfélaga vera mjög góð hugsun, þetta heitir auðvitað Jöfnunarsjóður sveitarfélaga og hlutverkið er að stuðla að meiri jöfnuði en með því að breyta regluverkinu þá þarf líka að taka mið af nýjum þáttum í samfélaginu af því að síðast þegar ég vissi var regluverkið og lagaumgjörðin kringum jöfnunarsjóðinn frekar gömul. Það þarf bara aðeins að stuðla að nýjungum þegar kemur að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. En varðandi tekjurnar sem hljótast af orkuframleiðslu — ég bara veit ekki hvaða leið er best. Ég held að besta leiðin væri að setja á sérstakt auðlindagjald sem síðan rynni beint til þeirra nærsamfélaga eða rynni að mestu leyti til þeirra nærsamfélaga sem verða fyrir beinum áhrifum virkjana. En ég veit að það er eitthvert samtal í gangi hjá fjármálaráðuneytinu um að skoða nýjar leiðir til skattlagningar og ég bara bíð spennt eftir þeirri vinnu.