154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024--2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

182. mál
[16:14]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og ég held að hv. þingmaður hafi akkúrat hitt naglann á höfuðið vegna þess að stóra verkefnið, þegar þessi þingsályktunartillaga verður komin í gegnum þingið, sem ég vona svo sannarlega að hún geri, verður að við hér sem sitjum á þessum stólum hér í þessum sal tryggjum að málinu verði fylgt eftir. Það þarf fjármagn og það þarf vilja þingsins til að það gerist. En mín trú er sú að það að setja þetta niður í þessu formi sem við erum að gera í þessari þingsályktunartillögu, með þessi markmið og þessar áætlanir sem við erum að stefna að, sem að mínu viti eru svo sannarlega til hins betra fyrir sveitarfélögin, sé gríðarlega mikilvægur þáttur í því að við getum aukið þrýsting á stjórnvöld og okkur hér til að ná þessu í gegn og fjármagna. Þá erum við komin með samþykki þingsins fyrir því að þetta sé sú leið sem menn vilja fara, þannig að ég mun fagna því þegar þetta verður komið í gegn.

Annars þakka ég þingmanninum bara fyrir að sýna þessu máli áhuga sem, eins og ég sagði áðan, er að mínu viti mikilvægt, enda eru samskipti ríkis og sveitarfélaga umræðuefni sem við kannski ræðum ekki alveg nógu oft hér í þingsal.