154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Mannréttindastofnun Íslands.

239. mál
[11:40]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar stuðning hins opinbera við Mannréttindaskrifstofu Íslands er gert ráð fyrir því, eins og ég kom að í mínu máli, að sá stuðningur falli í raun og veru brott og fari inn í þessa nýju stofnun. Í raun held ég að mér sé óhætt að segja að Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur lýst yfir stuðningi við þetta frumvarp, enda er það svo að ný stofnun uppfyllir þær skuldbindingar sem við viljum uppfylla til að geta lögfest sáttmálann og tryggt virkara mannréttindaeftirlit, þó að Mannréttindaskrifstofa Íslands hafi að sjálfsögðu staðið sig vel í þeirri stöðu sem hún hefur haft sem sjálfseignarstofnun, ekki stofnun með lögum.

Ný opinber stofnun — vissulega er það svo að ríkisstjórnin hefur sett það á dagskrá að einfalda kerfið þar sem mögulegt er. En það er ekki einhver hugmyndafræðileg afstaða hjá mér að nýjar stofnanir séu endilega til óþurftar. Hér er um að ræða mjög skýrt verkefni. Við fórum að sjálfsögðu yfir það, eins og ég nefndi í ræðu minni, hvort mögulega gæti þetta verkefni átt heima einhvers staðar annars staðar en niðurstaðan varð að þetta kallaði hreinlega á nýja stofnun til þess að tryggja þetta skýra hlutverk, sjálfstæði og óhæði, eins og ég nefndi áðan.