154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Mannréttindastofnun Íslands.

239. mál
[11:43]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég spyr um persónulega talsmenn vegna þess að til þess að við getum fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þá þarf að vera jafnt aðgengi að persónulegum talsmönnum. Ef þeir fá ekki greitt fyrir vinnu sína er ekki jafnt aðgengi að þeim vegna þess að það geta ekki allir reitt sig á fjölskyldu eða aðstandendur eða eitthvað slíkt til að sinna þessu mikilvæga hlutverki sem felur í sér að fólk með skerta getu til að taka ákvarðanir geti fengið aðstoð við ákvarðanatöku í staðinn fyrir að harðasta leiðin sé farin sem er að taka af því réttinn til ákvarðanatöku.

Annað mikilvægt mál þessu tengt er talsmenn eða stuðningur við fólk sem hefur verið vistað á geðdeild. Það er líka hópur sem ég tel að væri rétt að nyti meira sjálfstæðis heldur en hann gerir, fólk sem veitir lögfræðilega ráðgjöf gagnvart þeim sem hafa verið sviptir frelsi inn á geðdeild. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvað henni finnist um þá hugmynd að slíkir talsmenn, rétt eins og réttindagæslumenn fatlaðs fólks, gætu átt heima undir sjálfstæðri mannréttindastofnun frekar en í því fyrirkomulagi sem þeir eru í núna.