154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Mannréttindastofnun Íslands.

239. mál
[11:45]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Málið snýst auðvitað um að koma á fót enn einni ríkisstofnuninni með tilheyrandi umstangi og kostnaði eins og hv. þm. Bergþór Ólason fór hérna yfir áðan. Við hæstv. ráðherra erum auðvitað ósammála um að nýjar stofnanir séu ekki alltaf til óþurftar. Það er hægt að líta til allra landa heims og finna endalaus dæmi um stofnanir sem við gætum komið á fót hér en við erum auðvitað litla Ísland. Stjórnsýslan okkar er smærri í sniðum eins og hæstv. ráðherra þekkir mjög vel. Ráðherrarnir okkar bera til að mynda marga hatta á við kollega þeirra.

Það sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra út í er að mér finnst það ekki augljóst af frumvarpinu að verkefnin sem eru þar tiltekin falli undir eftirlitshlutverk með framkvæmdavaldinu. Mér sýnist t.d. að stór hluti varði réttindagæslu fyrir fatlaða, störf réttindagæslumanns, sem mér þykir augljóst að ætti að heyra undir framkvæmdarvaldið frekar en þingið eða undirstofnun þingsins. Sjálfstæði stofnunar ræðst síðan ekki af því hvort hún heyrir undir þing eða framkvæmdarvald, við þekkjum það úr stjórnsýslunni. Við eigum aðrar leiðir til að tryggja sjálfstæði. (Forseti hringir.) Mig langar að biðja hæstv. ráðherra um að færa sterkari rök fyrir þessum búningi sem hún leggur málið upp í.

(Forseti (AIJ): Forseti minnir á ræðutíma.)