154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[14:25]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli nú í annað sinn fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025. Tillaga þessi felur í sér stefnu og aðgerðaáætlun á sviði háskóla- og vísindastarfs, í nýsköpun og hugverkaiðnaði, í fjarskiptum, upplýsingatækni og netöryggi. Við flutning þessara málaflokka til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins skapaðist grundvöllur og tækifæri fyrir markvissa stefnumótun og stjórnsýslu á þessum sviðum með aukinn vöxt, verðmætasköpun og velsæld að leiðarljósi.

Saga atvinnu og efnahagslífs á lýðveldistímanum hefur einkennst af uppgangi og samdrætti á víxl í helstu atvinnugreinum þjóðarinnar. Einsleitni í atvinnuháttum hefur aukið áhrif slíkra breytinga á afkomu þjóðarbúsins. Til framtíðar skiptir það mjög miklu máli fyrir afkomu þjóðarinnar að auka fjölbreytni í efnahagslegum stoðum þjóðarbúsins. Þannig varð til sú sýn mín að lykillinn að bættum lífsgæðum þjóðarinnar og auknum tækifærum í atvinnulífi felist í hinni ótakmörkuðu auðlind, hugvitinu, sem verði grunnurinn að stærstu útflutningsgreinum þjóðarinnar.

Virðulegur forseti. Í fyrstu er í tillögunni fjallað um aðgerðir sem styðja við markmið í háskóla- og vísindastarfi. Íslenskir háskólanemar eiga skilið betra háskólanám og samfélagið á skilið að hér séu háskólar á heimsmælikvarða. Þangað eigum við að stefna. Hin Norðurlöndin hafa öll átt skóla á meðal 100 bestu háskóla í heimi og við eigum frábæra kennara og hæfileikaríka og metnaðargjarna nemendur sem hafa staðið sig vel í erlendum háskólum, komandi úr íslenskum háskólum, en kerfið hefur leitt til ákveðinnar sóunar og hvorki veitt skólunum þann stuðning né búið til hvata sem er forsenda framúrskarandi árangurs. Margt er framúrskarandi gott í íslenskum háskólum en við getum gert betur og í síðustu viku kynnti ég kerfisbreytingu sem ætlunin er að fara í við úthlutun fjármagns til háskólanna. Farnar verða nýjar árangurstengdar leiðir til að hvetja skólana til dáða og eitt af því sem ætlunin er að gera, sem mig langar að nefna sérstaklega í þessari ræðu í dag, því ég næ aldrei að fara yfir alla þingsályktunartillöguna, er að ýta undir enn meira fjarnám og nútímalegri kennsluaðferðir.

Enginn maður stígur tvisvar í sömu ána því áin er aldrei sú sama og maðurinn er aldrei sá sami. Einhvern veginn svona er þekkt tilvitnun í heimspekinginn Herakleitos en með þessum orðum lýsti hann því að um árfarveginn rennur alltaf nýtt vatn og að hver einstaklingur breytist jafnt og þétt með tímanum. Í síðustu viku þá gaukaði móðuramma mín að mér blaðaúrklippu frá árinu 1984. Hún hefur geymt hana í nærri 40 ár vegna þess að í blaðinu var umfjöllun um dóttur hennar sem hún missti, móður mína Kristínu Steinarsdóttur kennara. Umfjöllunin var um það að nokkrir kennarar ætluðu sér að fara um landið til að gefa landsbyggðarfólki kost á að kynnast tölvum og tölvunotkun. Orðrétt sagði í greininni frá 1984:

„Aðstöðumunur milli landsbyggðarmanna og þeirra sem búa í þéttbýlinu við Faxaflóa er afar mikill hvað varðar tækifæri til tölvunáms. Tölvuskólarnir eru nær allir í Reykjavík og landsbyggðarmenn verða að leggja í tímafrekt og kostnaðarsamt ferðalag þangað, til þess að tileinka sér hina nýju tækni.“

Jafnframt kom fram að ætlunin væri að bjóða fötluðu fólki ókeypis aðgang að þessum tölvunámskeiðum. Vatn úr mörgum án hefur runnið til sjávar frá því að elsku mamma lagði land undir fót og ýmislegt hefur breyst á nærri 40 árum en samt er það svo, líkt og Herakleitos hélt fram, að í allri breytingu er einhver stöðugleiki og í þessu tilviki er stöðugleikinn því miður sá að enn er ólíðandi aðstöðumunur milli þeirra sem búa úti á landi og þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Enn hefur fólk sem býr úti á landi ekki sömu tækifæri til náms og höfuðborgarbúar. Í hvert einasta sinn sem ég er með skrifstofu utan höfuðborgarsvæðisins kemur til mín fólk sem langar að læra, tileinka sér nýja þekkingu og hæfni, styrkja sig og efla en búa á sama tíma í sinni heimabyggð. Alls staðar er spurt: Af hverju bjóða háskólarnir ekki upp á enn meira fjarnám? Blessunarlega hefur fjarnám aukist stórlega undanfarin ár. Sumir háskólar eins og Háskólinn á Bifröst og Háskólinn á Akureyri hafa eflt fjarnám verulega og enn fleiri skólar eru að sækja fram, m.a. í gegnum samstarf háskólanna, og má þar t.d. nefna átak þeirra til að efla íslenskukennslu með fjarnámi og auka leikskólakennaranám í gegnum fjarnám. Í október verður aftur úthlutað fjármagni til samstarfs háskólanna og það er von mín að skólarnir sýni frumkvæði og metnað og sendi inn umsóknir sem opna skólana enn betur fyrir fólki alls staðar að úr samfélaginu, m.a. í gegnum aukið fjarnám.

En enginn maður stígur tvisvar í sömu ána því áin er aldrei sú sama og maðurinn er aldrei sá sami. Ekki síst vegna þess verður allt skólakerfið að stíga inn í nútímann, horfast í augu við að áin er ekki sú sama og þegar Háskóli Íslands tók til starfa 1911 til að mennta presta, lækna, lögfræðinga, og horfast í augu við að nemendur eru núna með allt aðrar kröfur, væntingar, drauma og þrár. Við verðum að mæta nýjum veruleika, nálgast nemendur á þeirra heimavelli alveg eins og mamma mín heitin lagði sig fram um að gera fyrir svo margt löngu.

Virðulegi forseti. Mig langar að nefna nokkra aðra þætti í þingsályktunartillögunni sem ég get ómögulega farið yfir í einni ræðu en við höfum stigið risastórt skref í eflingu umhverfis nýsköpunar á liðnum árum. Við erum nú í 20. sæti meðal þjóða í að vera besta nýsköpunarland í heimi. Við viljum gera betur og það eru nokkrir þættir sem valda því að við erum ekki hærri á þeim lista. Ég vona líka að markmið allra stjórnmálamanna sé að hagræða í ríkisrekstri og veita á sama tíma betri þjónustu, koma í veg fyrir sóun, nýta fjármunina sem best og að við þorum að ráðast í kerfisbreytingar þar sem þess er augljóslega þörf. Bæði á það við um háskólana og nýsköpunina. Við viljum að styrkir og fjárfestingar ríkisins í nýsköpunarumhverfinu séu á þeim sviðum þar sem markaðsbrestur er til staðar. Við viljum að það sé yfirsýn og gagnsæi og að umsýslukostnaði sé haldið í lágmarki. Umhverfi rannsókna og þróunar hefur styrkst verulega á síðustu árum og í síðasta ári fóru rúmlega 8 milljarðar kr. í gegnum stuðningskerfi opinberra samkeppnissjóða og mun fleiri milljarðar ef fleiri sjóðir eru teknir með í myndina. Stuðningskerfið verður að vera gott svo nýjar hugmyndir og frumkvöðlastarf verði að veruleika og skapi bæði ný störf og verðmæti fyrir íslenskt samfélag.

Í dag eru 55 sjóðir á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar og a.m.k. 40 þeirra eru með sérstakar stjórnir. Samtals teljast því vera 136 stjórnarmenn í þeim 40 sjóðum sem upplýsingar fundust um. Þetta er partur af þeirri vinnu sem hér er nefnd í tillögu til þingsályktunar, það þarf að fara í yfirferð á þessu sjóðaumhverfi öllu saman, gera betur, nýta fjármuni betur og hafa það ekki síst aðgengilegra og einfaldara að sækja um fyrir þau litlu fyrirtæki og fólk sem er oft eitt að byrja með hugmyndina sína. Aðgengi að þessum sjóðum er mjög misgott. Um helmingur sjóðanna er í umsýslu Rannís þar sem má nálgast upplýsingar um starfsemi þeirra, aðrir sjóðir eru með eigin heimasíðu eða með undirsíðu hjá ráðuneytum eða í einhverjum tilvikum bara í fréttatilkynningum ráðuneyta. Umsóknarkerfin eru líka mjög mörg og mismunandi og margir klukkutímar og dagar sem fara í það hjá litlum fyrirtækjum og frumkvöðlum. Þetta er allt frá umsóknum á pappírsformi yfir í rafræn umsóknarform. Af þeim rúmu 8 milljörðum sem fara til úthlutunar má gera ráð fyrir því að a.m.k. 5–10% af fjárframlögunum fari í umsýslukostnað og því má áætla að a.m.k. 800 millj. kr. fari í umsýslukostnað sem er ómældur kostnaður fyrir atvinnulífið og gjarnan frumkvöðla sem verja líka vinnu í ráðgjöf við umsóknir sem eru oft á tíðum torskildar og flóknar. Á þessu er tekið í þessari þingsályktunartillögu og er í forgangi hjá mínu ráðuneyti að vinna að nú.

En það eru fleiri vandamál sem við stöndum frammi fyrir og hægt er að fara hér yfir, m.a. við innleiðingu stafrænna lausna og nýsköpunar í okkar eigin kerfi og þá langar mig að nefna heilbrigðiskerfið sérstaklega. Í greiningu ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey kemur fram að starfsfólki Landspítalans muni fjölga um 36% og rekstrarkostnaður aukast um 90% ef þróunin áfram verður óbreytt til ársins 2040. Kostnaðurinn væri þá t.d. að fara, ef við tökum árið 2019 þegar þessi greining var gerð, úr 78 milljörðum í 148 milljarða. Aukinn kostnaður stafar auðvitað líka af lýðfræðilegum breytingum þar sem íbúum landsins fjölgar og þeir lifa lengur en fyrri kynslóðir en á hinn bóginn sýnir í sömu greiningu að ef brugðist verður við með nýjum ferlum, stafrænum lausnum, nýsköpun og tækni þá mun aukin þjónusta ekki leiða til nema 3% fjölgunar starfsfólks og 30% hækkunar á heildarkostnaði til ársins 2040. Þar horfum við fram á gjörbreytta mynd.

Við eigum framúrskarandi fyrirtæki á heilbrigðissviði, framúrskarandi nýsköpunarfyrirtæki og rannsókna- og vísindafólk sem hefur komið með lausnir á heimsmælikvarða og eru nýttar um allan heim. Hér þurfum við að horfa í eigin barm og átta okkur á því hvernig við getum nýtt þessar lausnir til að bjóða fólki hér betri þjónustu, nýtt fjármunina betur og ekki síst nýtt þessa ofboðslega góðu tækni og lausnir sem bjóðast annars staðar og eru íslenskar. Hér er mikið verk fyrir höndum og það er því eitt af áherslumálum í þingsályktunartillögunni að innleiða nýsköpun í heilbrigðiskerfið. Við höfum byrjað þar með innleiðingu á stuðningi Fléttunnar sem hefur nú þegar skilað sér í þeim mikilvæga árangri að heilbrigðisstofnanir eru farnir að versla við íslensk hugvitsfyrirtæki.

Virðulegur forseti. Gervigreindin er auðvitað líka farin að hafa áhrif á allt okkar líf. Það á ekki síst við um nám og kennslu á ýmsum skólastigum, Íslenska er annað tungumálið sem innleitt var hjá ChatGPT og það var mikilvægt skref fyrir okkur til að nýta okkur gervigreindina en sýnir einnig hversu tæknivædd við erum sem þjóð. Gervigreindin verður mikilvægur þáttur og er orðin það í rannsóknum, þróun og nýsköpun og iðnaði og öllu menntakerfinu. Hröð tækniþróun og viðvarandi krafa samfélagsins um nýtingu stafrænna lausna til að skapa tækifæri geta aukið lífsgæði en veldur því að viðfangsefnið býr líka til óþrjótandi uppsprettu nýrra áskorana.

Sérstaða Íslands sem eyju fjarri öðrum löndum gerir ríka kröfu til fjölda og áreiðanleika fjarskiptasæstrengja. Netárásir hafa aldrei verið fleiri og veikasti hlekkurinn er fólginn í andvaraleysi, vanþekkingu og mannlegum mistökum. Þess vegna höfum við sett á netöryggisaðgerðaáætlun, þá fyrstu á Íslandi, þar sem hægt er að fylgjast með rafrænt hvernig fram vindur sem er mikilvægt til þess að við verjum okkur betur.

Í þingsályktunartillögunni er kynntur fjöldi aðgerða sem styðja við markmið í fjarskiptum og upplýsingatækni og netöryggi til að bregðast við þessum framtíðaráskorunum. Þar má Ísland ekki dragast aftur úr og þar megum við ekki sofna á verðinum. Ísland má ekki dragast aftur úr í gagnaflutningi til landsins því við viljum vera eftirsóknarverður áfangastaður nýsköpunar og tæknifyrirtækja áfram. Ísland verður að vera samkeppnishæft að öllu leyti og íbúar á landsbyggðinni þurfa að hafa sama aðgengi og íbúar á stór-höfuðborgarsvæðinu. Í nútímasamfélagi er það einfaldlega forsenda þess að koma á jafnrétti óháð búsetu að tryggja að bæði störf og nám geti í auknum mæli verið óháð staðsetningu.

Margt annað er hér í þingsályktunartillögunni sem ég myndi vilja nefna. Við vorum að fá nýjar tölur um hvar við stöndum þegar við berum okkur saman í nýsköpun í heiminum og þar stöndum við í stað í 20. sæti núna á milli ára. Það sem er áhugavert er að það sem dregur okkur einna mest niður er bæði erlend fjárfesting sem og hvað við útskrifum fáa úr STEM-greinunum svokölluðu, raungreinum, vísinda- og tæknigreinum. Þar erum við í 84. sæti meðal þjóða. Þá er tekið á jafnréttismálum bæði er varða háskólana okkar þar sem staða drengja er ekki nógu góð. Það er tekið á nýsköpunarmálum þar sem staða kvenna er ekki nógu góð og það er tekið á jafnréttismálum líka varðandi fjarskiptamálin og netöryggi, stafvæðingu og hvernig það snertir jöfn tækifæri.

En, virðulegi forseti, með þá framtíðarsýn að leiðarljósi sem kemur fram í þingsályktunartillögu þessari tel ég forsenda vaxtar felast í breyttum áherslum í menntakerfinu, vísindum, nýsköpun, iðnaði og upplýsingatækni, gervigreind, öflugum fjarskiptum og netöryggi. Verði tillagan sem ég mæli hér fyrir samþykkt sem þingsályktun heiti ég því að hrinda í framkvæmd þessum stefnumótandi aðgerðum til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi og hlakka til að fá þingið með mér þar í lið. Þar getum við leyst úr læðingi þá krafta sem myndast við samþættingu hugmynda og hreyfiafls í þessum málaflokkum, til fjölgunar nýrra starfa og tækifæra sem auka vöxt og verðmætasköpun íslensks samfélags og styðja við velsældarmarkmið stjórnvalda.

Virðulegur forseti. Ég hef lagt til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Aftur á móti eru sjónarmið um það að við séum hér að tala um útflutningsgrein atvinnulífs og nýsköpunar og að tillagan eigi því betur heima hjá atvinnuveganefnd. En auðvitað á hún í rauninni líka heima í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem hér er m.a. fjallað um fjarskipti og netöryggi. En ég vil fá að heyra sjónarmið þingmanna um þetta.