154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[14:46]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir þá vinnu sem lögð hefur verið í þessa þingsályktunartillögu. Ég hefði gjarnan viljað sjá hana gilda lengur en bara til 2025, sérstaklega þar sem hún kom fram í vor og er ekki mikið óbreytt, ef ég man rétt, og ég hefði viljað að hún horfði sex mánuðum eða 12 mánuðum lengra. En það er margt í þessari tillögu sem er af hinu góða og ég held að það sýni sig, sérstaklega í greinargerðinni, að það er verið að leggja margt undir vegna þess að það er margt sem þarf að gera, sérstaklega vegna þess að við lifum á tímum sem eru ört að breytast. Það gerir að verkum að við þurfum að horfa á bæði menntakerfið, innviði okkar og atvinnulífið og það er mikilvægt að við sem þing séum að vinna saman að því að styðja við þessar breytingar.

Við Píratar viljum byggja upp sjálfbært samfélag sem getur tekist á við sjálfvirknivæðinguna og fjórðu iðnbyltinguna. Við teljum að til þess að geta tekist á við þessar miklu breytingar sem eru fram undan þurfum við, þvert á alla flokka, að vinna saman að því að skapa nýsköpunarlandið Ísland þar sem tækifærin eru að finna hjá fólki úti um allt land. En til að það verði að raunveruleika þá þarf öfluga, sjálfbæra og græna innviðauppbyggingu í öllum sveitarfélögum landsins til að koma til móts við áskoranir framtíðarinnar. Það er nefnilega, eins og hæstv. ráðherra benti á, mikilvægt að við séum með háhraðatengingar hvar sem er á landinu þannig að það skipti ekki máli hvort þú situr í Kópavogi eða á Kópaskeri þegar kemur að því að hafa möguleika á atvinnu. Við þurfum að skapa fleiri tækifæri fyrir framtíðarkynslóðir og sjálfbærni landsins með nýsköpun. Þessi nýsköpun þarf að eiga sér stað í opinberri starfsemi. Þessi nýsköpun þarf að eiga sér stað með samstarfi við atvinnulífið og með því að gera Ísland að þekkingarmiðstöð fyrir framtíðarsamfélagið. Saman þurfum við sem erum hér inni að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi með því að bjóða upp á nýjar leiðir, efla nýsköpun og fjölga undirstöðum íslensks iðnaðar. Sjálfvirknivæðingin sem er á næstu grösum gerir það að verkum að mörg þeirra starfa sem við störfum við í dag verða ekki til staðar eftir fimm til tíu ár þegar börnin okkar fara út á vinnumarkaðinn. Sem þjóð þurfum við að leggja mikla áherslu á nýsköpun sem lykilinn að því að takast á við þennan síbreytilegan heim. Við þurfum að byggja upp aðstöðu til nýsköpunar um allt land í náinni samvinnu við sveitarfélög og frumkvöðla. Við þurfum einnig að einfalda stofnun, skipulag og fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja og það þarf að huga að nýsköpun á mun breiðari grunni en hingað til. Þar tek ég undir orð þingmanns hér á undan í fyrirspurn. Það þarf m.a. að setja skýra stefnu um samfélagslega nýsköpun og græna nýsköpun.

Við þurfum líka að stórauka styrki til nýsköpunar með sérstaka áherslu á þessa grænu sprota og samfélagslegu nýsköpunina því þeir hafa minni aðgang að fjármagni frá fjárfestum, a.m.k. í upphafsskrefunum. Á sama tíma þurfum við líka að vinna í, eins og hæstv. ráðherra sagði, að fá hingað til lands mun meira erlent fjármagn til nýsköpunar. Þar þurfum við, og ég hvet hæstv. ráðherra að leggja í þá vinnu, að átta okkur á því hverjar hindranirnar eru. Hvað er það sem veldur því að fjárfestar koma ekki hingað? Þurfum við einfaldlega að fá fleiri til að koma og heimsækja landið? Það er oftast auðvelt. Eða er ástæðan t.d. sú sem var á tímum gjaldeyrishaftanna að það voru aukaskref hér sem gerðu það að verkum að fullt af fjárfestum vildu ekki koma af því að það var einfaldlega of flókið? Þetta þurfum við allt að skoða.

Eins og bent er á þá þurfa áherslur nýsköpunar að ná inn í menntakerfið og allan opinberan rekstur til að ná hagræði með nýrri tækni og þekkingu. Mig langar líka að nefna það að við Píratar höfum lagt til að við stöndum saman hér á Alþingi að því að Ísland skapi sér forystu með því að stofna hér alþjóðlegt þekkingar- og nýsköpunarsetur á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Það er gullið tækifæri sem við Íslendingar höfum til að byggja á okkar reynslu og þekkingu, miðla því hvernig við höfum gert þetta, t.d. að nýta gufu til að búa til rafmagn og til að hita hús og við höfum verið að fara með þá þekkingu víða um heiminn. Þetta gætum við nýtt okkur sem grunn í það að setja slíkt setur upp.

Mig langar að ljúka þessari ræðu minni með því að segja að við lestur þessarar þingsályktunartillögu og greinargerðarinnar sem hér fylgir með sést að grundvallarstefið í þessari tillögu gengur út á atvinnu, nýsköpun og iðnað framtíðarinnar. Já, það er talað um háskólana og já, það er talað um fjarskiptin, en grunnurinn er þekkingarsamfélagið og sú nýsköpun og sú nýja stoð sem hugvitið er. Eins og segir í þingsályktunartillögunni, með leyfi forseta:

„Hugvitið, hin ótakmarkaða auðlind, verði grunnurinn að stærstu útflutningsgreinum þjóðarinnar. Sjónum verði beint að sjálfbærri þróun atvinnulífs og samfélags með þekkingu og hugvit að leiðarljósi í stað þess að byggja á takmörkuðum auðlindum sem hafa í gegnum tíðina valdið sveiflukenndu efnahagsástandi.“

Þetta er greinileg vísun í það að hér er verið að fjalla um atvinnu- og útflutningsgreinar og því teldi ég að þetta frumvarp ætti að fara í atvinnuveganefnd sem hefur með nýsköpun og atvinnulífið að ræða. Það er eflaust hægt að færa alls konar rök fyrir því að senda það annað, jafnvel fara út í einhverjar langlokur um að þetta ætti að heima kannski í velferðarnefnd, ég veit það ekki, af því að hér er heilbrigðistækni nefnd. Ég hvet hv. þingheim um að senda þetta til atvinnuveganefndar sem mun taka þetta góða mál fyrir og vinna vel í því þannig að við getum staðið öll saman að góðri þingsályktunartillögu um þekkingarsamfélagið.