154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[15:04]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar ábendingar. Það er auðvitað þannig með þessa þingsályktunartillögu að hvert og eitt atriði gæti verið sérstök umræða á þinginu. Hér er farið yfir mjög stórt svið og mjög mörg atriði og eðli málsins samkvæmt komumst við aldrei yfir allt. Hér er auðvitað ekki verið að skilja neinar greinar eftir. Það er engan veginn ætlunin eða línan í þessari tillögu heldur einmitt lögð áhersla á þverfaglega nálgun og það á jafnt við um félags- og hugvísindin og aðrar greinar. Félagsvísindin eru gríðarlega mikilvæg til að takast á við stafræna þróun, ekki síst gervigreind svo að dæmi sé tekið. Það er aftur á móti þannig varðandi þær greinar sem eru teknar hér sérstaklega fram í einum kafla, sem hv. þingmaður er upptekinn af að sé einhvern veginn til þess að svara einungis þörfum atvinnulífsins, að við höfum verið að tala um hvernig við getum fjölgað nemendum í þessum greinum í mörg ár af því að við erum mjög aftarlega þegar kemur að samanburði við önnur lönd. Okkur vantar verulega sérfræðinga á þessu sviði svo að fyrirtæki ákveði að vera hér á Íslandi og það er hagsmunamál fyrir Ísland. Háskólarnir hafa auðvitað reynt þetta en það hefur ekki tekist. Hlutfallið hefur verið um 19% frá 2001, í 22 ár hefur hlutfallið í þessum greinum algjörlega staðið í stað. Við erum að setja okkur markmið og átta okkur á því hvernig við getum fjölgað í þessum greinum en það veikir ekki aðrar greinar eða segir að þessar greinar séu mikilvægari heldur snýst þetta um það hvernig við getum stutt þessa grein þar sem við höfum dregist aftur úr. Við erum í 84. sæti meðal þjóða, þetta dregur úr samkeppnishæfni Íslands alþjóðlega. Þetta dregur okkur niður þegar við erum að bera okkur saman við önnur lönd, hvort hér geti komið upp ný tækifæri og fjölbreytt störf, og þá vantar okkur fólk á þessum sviðum. Það er hagsmunamál fyrir alla Íslendinga og samfélagið allt, ekki einstök fyrirtæki, og þess vegna er það sérstaklega sett hér á dagskrá en minnkar ekki vægi annarra greina sem allar munu blómstra í nýju fjármögnunarmódeli.