154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[15:07]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir gott andsvar. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði áðan. Við verðum að sjálfsögðu að draga atvinnulífið til ábyrgðar til að miðla þeirri þekkingu sem það er að búa til og það er alls ekkert athugavert við það að atvinnulífið komi með sterkum hætti inn í menntastofnanir okkar. Hins vegar megum við aldrei skapa þannig umhverfi að við séum því algerlega fjárhagslega háð í því að halda úti starfsemi. Mig langar að segja að þessi áhætta sé mest innan félagsvísindagreina vegna þess að hér erum við bara einfaldlega á þeim stað að þegar sérfræðingar eru t.d. kostaðir af stórum fyrirtækjum sem koma og kenna sín fræði þá verður til ákveðinn „bias“ og við megum huga að því, sérstaklega þegar þessi aðgerðaáætlun fer af stað, að faglegt sjálfstæði háskólanna sé algerlega tryggt hvernig sem við svo sem förum að því.

Varðandi það hvernig staða okkar er í alþjóðlegum samanburði innan háskólasamfélagsins þá gæti ég aftur talað lengi um það að það er auðvitað ákveðið markvisst svelti sem hefur átt sér stað. Ég ætla hins vegar ekki að gera það vegna þess að mig langar ekki til að drepa umræðunni á dreif. Mig langar til að tala um það sem við þurfum að huga að í nákvæmlega þessari aðgerðaáætlun. Ég vil bara gjarnan sjá það í verkum þessarar ríkisstjórnar að ef það er eitthvað til í því að hug- og félagsvísindagreinar eigi að fá að njóta góðs af þessari miklu þekkingarveislu þá sjáum við það raungerist með einhverjum hætti, í einhverju fýsísku formi. Annars bíð ég bara spennt og hlakka til að taka þetta mál til frekari meðferðar innan nefndarinnar, þ.e. í allsherjar- og menntamálanefnd.