154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[15:09]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma fram með þessa mikilvægu tillögu og fyrir þá umræðu sem hefur skapast. Ég ætla að segja að það væri hægt að halda hér langa ræðu og eins og hæstv. ráðherra kom inn á að væri í rauninni hægt að taka sérstakar umræður, eða langar umræður um hvern og einn punkt sem hér er undir. Mig langar bara nefna að það hefur í of langan tíma verið talað um hugverkaiðnaðinn sem svona einhverja hliðarbúgrein, sem einhverja framtíð, eitthvað huggulegt kósí, og mér finnst eins og við séum ekki alveg að átta okkur á að við erum að tala um raunverulega stoð í íslensku atvinnulífi. Í kringum Covid þá töluðum við um að útflutningsverðmæti hugverkageirans væri 20% af öllu útflutningsverðmæti Íslands, þannig að þetta er raunveruleg stoð.

Við höfum náð verulegum árangri í því hvað við erum að leggja til í rannsóknir og þróun. Við erum komin í 2,8% af vergri landsframleiðslu og langstærsti hlutinn af því, 72%, kemur frá einkageiranum, fyrirtækjunum sjálfum. En hið opinbera er líka mikilvægur þátttakandi í því að ýta undir frekari rannsóknir og þróun, ýta undir nýsköpun í samfélaginu og ég held að við höfum svo ofboðslega góða sögu að segja af þeim aðgerðum sem við höfum farið í kannski á síðustu tíu árum eða svo þar sem aðgerð eftir aðgerð hefur orðið þess valdandi að ýta undir og byggja frekar undir þessa stoð. Þar er af mörgu að taka og væri efni í sérstaka umræðu.

Mig langar að segja að við fengum þetta mál inn til okkar í allsherjar- og menntamálanefnd í fyrra. Það kom reyndar bara undir vorið þannig að við náðum ekki að ljúka því. Það komu umsagnir þannig að við náum aðeins að snerta á málinu í nefndinni. Mér finnst málið mjög áhugavert og myndi mjög gjarnan vilja taka það fyrir þar. Það er alveg ljóst að 1. kaflinn á klárlega heima í allsherjar- og menntamálanefnd, sem eru aðgerðir sem styðja markmið í háskóla- og vísindastarfi og allir liðirnir þar undir eru beintengdir því sem við erum að fjalla um í allsherjar- og menntamálanefnd.

Það er líka alveg rétt hjá hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni að allir punktarnir í 2. kaflanum hafa með atvinnumál að gera og gæti þar af leiðandi farið í atvinnuveganefnd. Svo er 3. kaflinn. Hann ætti eiginlega heima í umhverfis- og samgöngunefnd eða jafnvel í utanríkismálanefnd þegar kemur að netöryggi. Það er nú stundum svo að sviðið er vítt. Ég ætla að hrósa hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir raunveruleg rök fyrir því að þetta mál ætti mögulega heima í annarri nefnd en hér er lagt til af ráðherra, annað en kannski þessi umræða sem við vorum í fyrr í dag þar sem við vorum að takast á við einhvers konar rökleysu. Ég ætla sem sagt ekki að hafa neitt sérstaklega stórar skoðanir á því hvert málið fer. Mér finnst það geta átt heima í ýmsum nefndum. Ég mun ekki veigra mér við að taka það til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd en það er sagt að sú nefnd sé stór og víðfeðm og taki yfirleitt við flestum stjórnarmálum þannig að það má vel færa rök fyrir því að það geti átt heima annars staðar.

Að öðrum kosti, hvort sem við munum fjalla um þessa þingsályktunartillögu þar eða ekki, þá held ég að það sé alveg ljóst að við munum eiga fundi með hæstv. ráðherra um þá punkta í aðgerðaáætluninni sem lúta sérstaklega að okkar nefnd, að menntamálunum. Við höfum reyndar þegar hafið samtal við hæstv. ráðherra um það sem við höfum fengið kynningu á, breytingarnar á reiknilíkaninu fyrir fjármögnun háskólanna. Við höfum reyndar líka haft tækifæri til að heimsækja Háskóla Íslands og fá kynningu á starfseminni þar og okkur bíður spennandi vetur í hv. allsherjar- og menntamálanefnd að fjalla um menntamálin á öllum stigum menntunar.