154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

fasteignalán til neytenda.

171. mál
[15:56]
Horfa

Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég fletti þessu upp og neytandi er sem sagt einstaklingur sem á lánaviðskipti sem lög þessi ná til, enda séu þau ekki gerð í atvinnuskyni af hans hálfu. Þetta er víst alveg skýrt í lögum um fasteignalán. Það er alveg rétt líka sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson minntist á hér áðan í andsvörum við mig, að þetta nær ekki til leigufélaganna. Þá má alveg minna á að við í Flokki fólksins höfum lagt fram fleiri frumvörp sem taka á þeim. Við höfum t.d. verið með og erum með frumvarp um leigubremsu og höfum líka lagt til og stutt tillögur um breytingar á fjárlögum sem miða að því að auka uppbyggingu óhagnaðardrifinna leigufélaga og íbúða. Þannig að það er svo sem verið að taka á því líka á öðrum vettvangi þótt örugglega megi gera meira.

Varðandi fjárfestingar á íbúðamarkaði þá er þetta merki um svolítið brenglaðan húsnæðismarkað. Hann er m.a. brenglaður út af verðtryggingu lána sem, eins og þingheimi er nú væntanlega kunnugt um, ég er mjög mikið á móti, vegna þess að verðtryggingin segir í rauninni að húsnæðisverð verði að hækka vegna þess að annars endar fólk í neikvæðri eiginfjárstöðu. Það eru ansi margir sem hagnast á verðhækkunum á húsnæðismarkaði. Það eru náttúrlega fjárfestar sem hagnast þar. Það eru þeir sem sjá um fasteignaviðskipti, sem fá prósentur, hærri eftir því sem verðið er hærra. Sveitarfélög hagnast á hækkandi húsnæðisverði vegna þess að fasteignagjöld hækka sjálfkrafa með fasteignamati, sem er alveg fáránleg ráðstöfun vegna þess að tekjur þess sem býr í húsnæðinu, neytandans, hafa ekkert aukist þó að fasteignamat á pappír hafi hækkað. Við erum í ákveðinni keðjuverkun þarna sem gengur ekki alveg upp. Og ég er reyndar með frumvarp um það líka að taka þurfi ákvarðanir um fasteignagjöld.

Málið er líka með verðtrygginguna að, eins og ég sagði áðan, hún ýtir á eftir verðhækkunum. Við erum t.d. að horfa upp á það núna að ef neytandi tekur 40 millj. kr. verðtryggt lán í dag er það eftir þrjú ár orðið 52 milljónir og ef hann tekur 50 millj. kr. verðtryggt lán í dag er það eftir þrjú ár orðið 65 milljónir. Þetta þýðir bara ósköp einfaldlega að ef húsnæðisverð hækkar ekki á næstu árum verða fjölmargir komnir með neikvæða eiginfjárstöðu. Svoleiðis að við erum að reyna að koma hérna með þessu frumvarpi með einhverja lausn inn á húsnæðismarkað sem er í rauninni bara mjög brenglaður.

Vonandi getum við þarna dregið úr ásókn fjárfesta í íbúðir sem aðrir og þeir sem þurfa heimili eiga að geta fengið.