154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

fasteignalán til neytenda.

171. mál
[16:03]
Horfa

Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég get talað lengi og mikið um verðtrygginguna. Það er alveg rétt sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson segir, þetta er vítahringur og við erum bara föst í honum af því að það er enginn vilji til að losa okkur út úr honum. Það er líka rétt sem þingmaðurinn sagði að vísitala neysluverðs er í rauninni bara hitamælir á hagkerfið. Hún er ekki slæm í sjálfu sér. Það t.d. hvort húsnæðisliðurinn er í vísitölunni eða ekki myndi ekki breyta nokkrum sköpuðum hlut yfirleitt fyrir neytendur nema af því að lánin okkar eru beintengd við þennan hitamæli. Það er það sem er að. Ég efast um að í öðrum löndum sé jafn mikið talað um vísitöluna og hér og hvort þetta eða hitt eigi að vera í henni. Hún á að mæla ákveðna hluti, ég viðurkenni það. Ég bara mótmæli því harðlega að lán almennings séu tengd við hana.

Þá má t.d. nefna að núna í þessari miklu verðbólgu og því sem stjórnarmenn vilja kalla stöðugleika, en er náttúrlega bara enginn stöðugleiki, er mikið talað um að það séu engin vanskil. Það er ekki orðið neitt slæmt hjá einum eða neinum lengur, fólk sé alveg að ráða við þetta af því að það eru ekki vanskil í bönkunum. Það eru ekki vanskil í bönkunum af því að það er verið að bjóða fólki upp á — eða neyða það yfir í verðtryggð lán. Og þar með minnkar greiðslubyrðin, fólk róast í smástund og allt verður betra í svolitla stund. En því miður mun það bara ekki standa lengi. Enn þá eru vanskilin engin en við vitum að þegar bankarnir eru komnir með krókinn í einhvern þá draga þeir hann að landi. Og það munu þeir gera áður en allt of langt um líður, því miður.