154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

fasteignalán til neytenda.

171. mál
[16:07]
Horfa

Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði það réttilega að þetta væri veðmál. Þetta er veðmál um launaþróunin og þetta er veðmál um húsnæðisverð. Það er nefnilega nákvæmlega það sem við erum að tala um og ég skil ekki alveg hvers vegna það er talið gott. Hér mega laun ekki hækka vegna þess að þá fer allt til, ég veit ekki hvert, og hér verður húsnæðisverð að hækka vegna þess að annars lenda mjög margir í neikvæðri eiginfjárstöðu. Þetta veðmál heppnaðist t.d. alls ekki eftir hrun þar sem þúsundir fjölskyldna misstu húsnæði sitt og nú er bara hreinlega verið að gefa í annað hrun. Það er bara ekkert flóknara en það. Það mun gerast. Það að taka verðtryggt lán í yfir 7% verðbólgu er alltaf eitthvað sem mun leiða í slæma hluti.

Hvað varðar það að þetta eigi að jafnast út af því að húsnæðisverð hækki þá finnst mér allt í lagi að spyrja: Af hverju á bankinn að hirða þann hagnað? Af hverju má ekki neytandinn fá þann hagnað sem verður af húsnæðisverði sem fer hækkandi? Þeir sem eru með óverðtryggð lán fá þennan hagnað til sín. Þar fyrir utan, og það eru ekki margir sem gera sér grein fyrir því, er mesta og hæsta afborgun af verðtryggðum lánum í lok lánstímans. Þess vegna er meðallíftími verðtryggðra lána á Íslandi í kringum átta ár, vegna þess að þá ræður fólk ekki lengur við greiðslubyrðina af því og endurfjármagnar, yfirleitt aftur í verðtryggt af því að það hefur ekki greiðslugetu fyrir óverðtryggt. Þá er verðtryggða lánið sem var 40 milljónir komið upp í 55, 60, 70 milljónir þegar það er svo endurfjármagnað. Og þannig heldur vítahringurinn áfram koll af kolli.