154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

aðgerðir stjórnvalda gegn verðbólgu.

[15:17]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Já, ég held að allt bendi til þess að það komi ekkert meira frá ríkisstjórninni núna í aðdraganda þess sem átti að vera langtímakjarasamningar á vinnumarkaði. Afleiðingar af þeim munu hafa gífurleg áhrif víða í hagkerfinu, m.a. á útgjöld ríkissjóðs og því finnst mér athugavert að það sé ekki verið að taka mið af núverandi aðstæðum. Ég vek til að mynda athygli á athugasemdum sem komu frá fyrrum meðlimi peningastefnunefndar, Katrínu Ólafsdóttur hagfræðingi, þar sem hún benti á að skortur á aðhaldi á tekjuhlið væri stór vandi núna í ríkisrekstrinum. Þetta er algjörlega í samræmi við það sem við höfum bent á núna í Samfylkingunni.

Ég vil líka benda á það sem hefur komið fram í nýjum gögnum, af því að það er alltaf verið að tala um að staðan sé svo góð hér, að kaupmáttur hefur rýrnað það sem af er þessu ári. Endurskoðaðar tölur hjá Hagstofunni benda til þess að kaupmáttur hafi líka rýrnað í fyrra. Við erum að sjá mjög hraða aukningu á yfirdrætti og við erum líka að sjá merki um að það sé mikið um fyrirframgreiðslu arfs í hagkerfinu okkar í dag, allt til marks um að ungt fólk og fólk víða á í vandræðum. Þannig að ég ítreka spurningu mína til hæstv. forsætisráðherra: Eigum við að fara inn í þessa kjarasamningslotu með fjárlögin eins og þau standa í dag?