154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

afstaða forsætisráðherra til árásar á Ísrael.

[15:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Um helgina varð Ísrael fyrir mestu hryðjuverkaárás í sögu landsins. Yfir 1.000 hryðjuverkamenn Hamas-samtakanna brutust yfir landamærin inn í Ísrael til að drepa þar fólk af handahófi. Um 260 ungmenni hið minnsta voru drepin á tónlistarhátíð sem helguð var friði. Svo var farið inn í íbúðahverfi, gengið hús úr húsi og fólk myrt á heimilum sínum, konum nauðgað og fólki, m.a. börnum, rænt. Á meðan var þúsundum eldflauga skotið á Ísrael. Enn er óljóst hversu margir féllu í þessari hryðjuverkaárás, alla vega yfir 800, miklu fleiri særðust og það er ekki vitað hversu margir voru teknir í gíslingu. Síðan þá og raunar strax eftir þessar hörmungar lýstu nánast allir þjóðarleiðtogar Vesturlanda, og reyndar fleiri, yfir fordæmingu á þessum hryðjuverkum og Hamas.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra Íslands: Fordæmir hæstv. ráðherra Hamas og þessi hryðjuverk? Ég er ekki að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann fordæmi ofbeldi almennt, það gera flestir, og hvort hæstv. ráðherra vilji sjá frið. Það gera flestir líka. En getur hæstv. forsætisráðherra Íslands tekið undir með öðrum þjóðarleiðtogum á Vesturlöndum og fordæmt afdráttarlaust Hamas-samtökin, hryðjuverk þeirra og þá sem afsaka þessi hryðjuverk eða styðja jafnvel?