154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

framkvæmd samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

[15:47]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég er þingmaður höfuðborgarsvæðisins, nýkomin úr kjördæmaviku eins og við öll. Samgöngur eru líka risastórt mál hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég er ein þeirra sem fagnaði mjög þegar við kláruðum samgöngusáttmálann og settum á laggirnar Betri samgöngur. Ég hef frá því að ég settist hér á þing ítrekað rætt samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu og lagt fram fyrirspurnir til hæstv. ráðherra um fjármögnun nýframkvæmda. Árið 2017 lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra þá, Jóns Gunnarssonar, um hvernig hægt væri að flokka nýframkvæmdir eftir kjördæmum. Þá kom í ljós að 17% af nýframkvæmdafé hafði verið varið hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég endurtók þessa fyrirspurn mína til hæstv. ráðherra 2022 og þá kemur í ljós að 15% af nýframkvæmdafé rennur til höfuðborgarsvæðisins. Tæplega 70% búa á þessu svæði. 63% búa á höfuðborgarsvæðinu, skilgreindu Suðvesturkjördæmi, en um 70% koma hingað daglega og sinna hér námi og vinnu.

Ég er auðvitað ekki að segja að 70% af nýframkvæmdafé eigi að renna til höfuðborgarsvæðisins. Ég átta mig á því að við búum í stóru landi og það er dýrt að halda uppi samgöngukerfi í landinu öllu. Þessar tölur eru engu að síður sláandi. Þess vegna fagnaði ég mjög þegar ég taldi að við værum að ná utan um verkefnið með samgöngusáttmálanum. Nú hefur komið í ljós að þær kostnaðaráætlanir sem lágu þar fyrir hafa farið langt upp fyrir, líklega hafa þær tvöfaldast. Því er eðlilegt að spyrja fyrir hönd þeirra sem hér á þessu svæði búa: Hver er framtíðarsýnin okkar? Hvenær náum við utan um þetta? Hvenær getum við farið að hefja framkvæmdir í samræmi við samgöngusáttmálann?