154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Ráðstöfun söluágóða af ríkiseignum til fjárfestinga í mikilvægum innviðum.

[16:18]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Frú forseti. Það má segja að það sé ansi sérstök umræða sem við eigum hér í dag. Það er um ansi víðfeðman málaflokk að ræða, ríkiseignir, sem þverar málaflokka, ef svo má að orði komast, málaflokka sem snerta alla landsmenn. Það sem væntanlega vakir fyrir málshefjanda í dag er kannski jafnvel að draga stefnu Sjálfstæðisflokksins fram þegar kemur að sölu ríkiseigna. Kannski er þá ágætt líka að fara yfir áherslur okkar í Framsókn.

Þegar kemur að sölu ríkiseigna teljum við afar mikilvægt að ríkið eigi að halda eignarhlut sínum í lykilinnviðum samfélagsins, svo sem eins og Landsvirkjun, svo að eitthvað sé nefnt, ásamt þeim innviðum sem eru mikilvægir með tilliti til öryggis og hagsældar um allt land. Ég tel ekki réttlætanlegt að við látum skammvinna hagsmuni í væntum söluhagnaði ráða ríkjum þegar um er að ræða brothætta þjónustu, sér í lagi þar sem ríkir fákeppni, þar sem um er að ræða mikilvægan hornstein í neytendavernd fyrir alla landsmenn.

Þá er afar brýnt í þessu samhengi að leggja áherslu á að brugðist sé við þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið í umræðu síðustu misseri sem snúa að því að auka gagnsæi þegar kemur að umsýslu með ríkiseignir. Þar skiptir verulegu máli að við alþingismenn, sem kjörnir erum til starfa fyrir þjóðina í landinu, höfum greinargóðar og handbærar upplýsingar um fyrirhuguð áform framkvæmdarvaldsins. Í því ljósi tel ég brýnt að sérstök áhersla verði á aukið upplýsingaflæði um öll þau söluferli sem fyrirhuguð eru.

Að lokum vil ég þó nefna að við höfum vissulega tækifæri til að losa um innviði og eignir í eigu ríkisins en það er skýrt í mínum huga að þeim fjármunum verði að beina til innviðauppbyggingar og þá sérstaklega til samgöngumála.