154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[17:01]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég vil segja það hér í upphafi að við sjáum fyrir okkur, verði þetta frumvarp að lögum, talsvert miklar breytingar á uppbyggingu stofnunarinnar. Það var niðurstaða sérfræðinga ráðuneytisins að breytingarnar væru það miklar að þær kölluðu á slíka uppstokkun eins og við erum að leggja til hér, bæði með flutningi verkefna frá ráðuneyti til stofnunarinnar og öfugt. En líka og ekki hvað síst vegna þess að við erum að tala um heildstæða þjónustu sem á að vera þvert á skólastig, leik-, grunn- og framhaldsskóla. Þannig að ný stofnun verður með talsvert ólíkt hlutverk miðað við það sem núverandi Menntamálastofnun er með.

Það var niðurstaða mennta- og barnamálaráðuneytisins og greiningar búa að baki því, sem er hægt að kalla fram í vinnslu nefndarinnar, sem kölluðu á þessa breytingu. Ég vil líka segja að í þessari frumvarpsgerð þá erum við líka að vinna þétt með — það er svona hluti af stærri breytingum sem tengjast menntastefnunni, eins og ég nefndi hér áðan, þar sem ég held að við þurfum að stórauka þjónustuhlutverkið og þá eftir atvikum flytja stjórnsýsluhlutverkið frá stofnuninni. Sú vinna hefur líka verið unnin í mjög þéttu samstarfi bæði við Samtök íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands.

Ég skil vel athugasemd hv. þingmanns. Þetta er eðlilega eitt af því sem við veltum fyrir okkur þegar við höfum verið í þessari vinnu, hvort nauðsynlegt sé að leggja fram frumvarp með þessum hætti og mitt mat og mat ráðuneytisins er að svo sé.