154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[13:46]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra sagt af sér, sagt af sér embætti vegna vanhæfis við söluna á Íslandsbanka. Það hefur alltaf legið fyrir að fjármálaráðherra væri vanhæfur með því að selja föður sínum eignarhluta í Íslandsbanka, álit umboðsmanns staðfestir það einfaldlega. En vegna þess sem hefur komið fram hér áður í ræðum þá telur umboðsmaður einnig að það hefði verið betra og í samræmi við stjórnsýslulög og vandaða stjórnsýsluhætti ef afstaða til þess hvernig reglur um sérstakt hæfi horfðu við sölunni hefði komið fram í skriflegum gögnum við undirbúnings málsins. Það var ekki gert. Undirbúningnum var ábótavant, heimavinnan var ekki unnin. Fjármálaráðherra vann ekki heimavinnuna áður en hann fór að selja. Það er áfellisdómur yfir stjórnsýslunni og það er ráðherra sem ber ábyrgð á því, enginn annar. Það er enginn annar sem selur banka nema fjármálaráðherra.

Annað sem skiptir máli hérna er að ráðherra hefur haldið því fram að það væri óraunhæft að skoða tengsl hans við einstaka bjóðendur. (Forseti hringir.) Það er ekki heldur rétt. Að sjálfsögðu áttu einstakir bjóðendur að tilkynna um það, (Forseti hringir.) ef faðirinn hefði verið meðal bjóðenda, að láta ráðherrann vita af því, láta vita um vanhæfið, mögulegt vanhæfi.