154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[13:49]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er eitt og hálft ár síðan kaupendalistinn var birtur og ljóst var að hæfi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra var undir við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Að sjálfsögðu hefðum við þurft þá og þegar að stofna rannsóknarnefnd á vegum Alþingis þannig að öll kurl gætu komið til grafar, allar heimildir væru fyrir hendi og við stæðum ekki í þessum sporum í dag. Ég fullyrði að niðurstaðan hefði verið sú sama fyrir hæstv. ráðherra af því að að sjálfsögðu var hæfið eins og segir í áliti umboðsmanns Alþingis. Á því leikur enginn vafi.

En það sem mig fýsir að vita í dag er það hvort þögn hinna formanna stjórnarflokkanna þýði það að það eina sem blasi við núna sé að finna út úr því í hvaða ráðherrastól hæstv. fráfarandi fjármála- og efnahagsráðherra eigi að setjast og hvernig eigi að tefla skákina til enda í þessu afar vonlausa og vonda stjórnarsamstarfi.