154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[13:50]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Forseti. Hér hafa margir hv. þingmenn komið og lýst því yfir að t.d. hafi öllum steinum verið snúið við. Tilfellið er að þeim var ekkert snúið við nema bara vegna þess að þeir neyddust til að snúa þeim við. Það var streist á móti því að kanna hæfi, það var streist á móti því að kanna hvort eðlilega hafi verið staðið að þessum málum. Og núna þegar það er loksins búið að sýna fram á það með óyggjandi hætti að það var ekkert í lagi með þetta þá koma hv. þingmenn og lýsa því yfir að að sjálfsögðu verði steinum snúið við. En það er ekki það sem þarf að gerast. Það sem þarf að gerast er að það þarf að vinna hlutina almennilega án þess að þurfa að vera alltaf að snúa við einhverjum steinum. Við getum ekki verið í einhverri steinaleit úti um allt. Við þurfum bara að passa upp á að það sé rétt farið að. Það er algjört lágmark.