154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[13:52]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það á ekki að vera yfir gagnrýni hafið að selja ríkiseignir, að selja banka. Það höfum við í Sjálfstæðisflokknum ítrekað sagt og það hef ég sagt úr ræðustóli Alþingis. Það voru settar reglur um söluna á bankanum og Bankasýslu ríkisins var falið að sjá um þá sölu. Fjármálaráðherra færði Bankasýslunni það hlutverk að bera ábyrgð á sölunni og salan gekk vel. Við skulum hafa það í huga að salan á þessum eignarhlut í Íslandsbanka gekk vel. Ég dreg heilindi hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar ekki í efa. Ég var ein af þeim sem stóðu hér í pontu Alþingis og sagði að við skyldum velta yfir steinum. Ég man þau orð mín. Ég sagði: Ef eitthvað athugavert verður fundið við það ferli sem farið var í þá mun fólk axla ábyrgð. Það er það sem er að gerast í dag. Mér þykir hæstv. fjármálaráðherra vera maður að meiri og hann sýnir hér Alþingi sóma með því að bregðast við mati sem er umdeilanlegt.