154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[13:54]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Það má ekki selja pabba sínum banka. Þetta sögðum við fyrir einu og hálfu ári síðan. Síðan þá hafa margir hv. þingmenn hér inni reynt alls konar brellur og brögð til þess að ekki þyrfti að axla þá ábyrgð sem fylgir því að brjóta lög. Já, þetta var brot á lögum um það hvernig ætti að selja hluti. Við þurfum virkilega öll að horfa í augun á hvert öðru núna vegna þess að við erum búin að vera að afsaka það í eitt og hálft ár annars vegar og við hin að berjast fyrir því hins vegar að einhver axli ábyrgð á þessu athæfi. Já, að sjálfsögðu átti hæstv. ráðherra að segja af sér, hann átti bara ekki að gera það í dag, hann átti að gera það fyrir einu og hálfu ári síðan. En ég ætla rétt að vona að sá lærdómur sem við öll drögum af þessu hér inni á þingi sé að við verðum að fara að bæta siðferði ráðherra og þingmanna hér inni.