154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[14:02]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Varðandi armslengd við söluna: Það var engin armslengd við þessa sölu og ég vona að við hættum að nota það hugtak, ég er orðinn svo þreyttur á því að það hálfa væri nóg. Það var engin armslengd við þessa sölu. Það var fjármálaráðherra sem seldi Íslandsbanka og enginn annar. Armslengdin á hins vegar við þegar daglegur rekstur bankanna á við, þá kemur Bankasýslan til skjalanna.

Varðandi ómöguleikann um að uppfylla hæfisskilyrði laganna: Ég hafna því algerlega að það hafi verið ómöguleiki hjá fjármálaráðherra að uppfylla hæfisskilyrði laganna. Það er bara rangt og umboðsmaður fjallar um það. Í því sambandi bendir umboðsmaður á „mikilvægi þess að undirbúningi mála […] sé hagað þannig að framkvæmd þeirra samrýmist lögum.

[…] telji stjórnvöld rök standa til þess að haga beri meðferð máls á þann hátt að reglur um sérstakt hæfi eigi ekki við um tiltekin atriði, ber þeim að leita viðeigandi leiða í því sambandi.“

Ráðherra geti til að mynda lagt fram frumvarp til lagabreytinga í þessu skyni og sé það þá Alþingis að meta hvort tilteknar aðstæður réttlæti það. (Forseti hringir.) Það var enginn ómöguleiki, það var engin armslengd og ég tel þetta vera rétta ákvörðun hjá fjármálaráðherra.