154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[14:05]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það er að mörgu leyti áhugavert að hlusta á þessar ræður sem hér fara fram. Nú er talað um að engin armslengd hafi verið í þessu máli og að penninn sé á endanum hjá fjármálaráðherra. Það hlýtur þá að vekja upp þá spurningu hvers vegna þessir sömu hv. þingmenn og flokkar lögðust svo eindregið gegn tillögu fjármálaráðherra á sínum tíma um að leggja Bankasýsluna niður, einmitt til þess að axla persónulega ábyrgð á svona gjörningum embættisins. Það var þá talið mjög mikilvægt að viðhalda þessu kerfi og ráðherra var hrakinn til baka með þessa tillögu sína um að í raun axla ábyrgð á þessu. Það er auðvitað búið að lýsa því hér og umboðsmaður lýsir því ágætlega í hverju þessi ómöguleiki felst. Hann liggur auðvitað í því að það er ekki hægt að framkvæma þetta með þessum hætti, að viðlagðri ábyrgð, samkvæmt þeim lögum sem hér er undir. Í því felst ómöguleikinn. (Forseti hringir.) Þingið eða aðrir hefðu þurft að setja það skilyrði inn í lögin að við myndum afnema þessa vanhæfisreglu (Forseti hringir.) í þessari aðferðafræði en menn litu fram hjá því (Forseti hringir.) og yfirsást það.

Síðan er þetta með rannsóknarnefndirnar (Forseti hringir.) og svona. Við höfum stofnanir þingsins, það er það sem við Sjálfstæðismenn höfum alltaf sagt: Látum þær þá fjalla um þetta, stofnanir þingsins. (Forseti hringir.) Það hefur gerst og við tökum ábyrgð og öxlum ábyrgð í þeim efnum.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir enn á að ræðutími er takmarkaður í fundarstjórn forseta er ein mínúta í hverri ræðu.)