154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[14:09]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í þessari umræðu þá held ég að við gleymum því að um síðustu helgi voru 15 ár síðan bankahrunið var, 15 ár. Þetta er bara örstuttur tími. Við erum aftur komin, innan 15 ára, á þann stað að við erum að rífast um fjármálakerfið, klúður í bankasölu. Lærum við ekkert? Sem betur fer, jú, er byrjað að bera ábyrgð og hæstv. fjármálaráðherra ætlar að bera ábyrgð en svo koma aðrir Sjálfstæðismenn hér og segja að þetta hafi eiginlega ekki verið neitt neitt, hann eigi einhvern veginn ekkert að bera ábyrgð á þessu. Auðvitað á hann að bera ábyrgð á þessu og ríkisstjórnin á líka að bera ábyrgð á þessu. Okkur ber skylda til þess að hugsa aðeins aftur í tímann, um hvað skeði í bankahruninu og við eigum að læra af því. En við erum ekkert að læra af því, alveg greinilega ekki hér.