154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[17:01]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Ég ætla að byrja á fyrra málinu sem er brúin yfir Skjálfandafljót. Ég var í rauninni kannski líka að kalla eftir því að á meðan við sjáum ekki: Ókei þennan dag getum við byrjað að byggja nýja brú, þá held ég að það sé mjög gagnlegt að við komum upp einhvers konar ljósum, einhvers konar umferðarstýringu, því að þetta er tifandi tímasprengja.

Varðandi hitt málið þá bara vildi ég vekja á þessu athygli. Ég er ekki að segja að PPP-verkefnin séu ómöguleg eða að þau eigi ekki við á landsbyggðinni eða hvar sem er. Það er hins vegar þannig að það hefur bara ekkert gerst og það virðist vera þannig, hvort sem það er að verktakarnir sæki ekki eftir því eða hvort, sem maður hefur líka heyrt, lánastofnanir láni bara ekki slíkar fjárhæðir fyrir verkefni á landsbyggðinni, þá er það auðvitað komið á þann stað að erfitt er að horfa til slíkra verkefna ef þau eru jafnvel góð hugmynd en óraunhæf vegna aðstæðna hér á landi.