154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[17:02]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. innviðaráðherra fyrir framsöguna hér í tengslum við framlagningu samgönguáætlunar. Til að byrja á jákvæðum nótum þá vil ég hrósa fyrir þessa breyttu framsetningu, að vera með þetta í einu skjali, það auðveldar að ná utan um það sem verið er að leggja til.

Ef við byrjum aðeins á því að reyna að horfa á stóru myndina þá erum við auðvitað í þeirri stöðu núna að vilja koma verklegum samgönguframkvæmdum áfram á sama tíma og reynt er að vinna gegn þeim verðbólguþrýstingi sem er í kerfinu núna. Að því sögðu þá verðum við auðvitað að hafa það í huga þegar við erum að horfa á 15 ára áætlun eins og hér liggur fyrir að það þarf að vera meiri festa í seinni áætlunartíma heildarplaggsins en kannski oft hefur verið. Ég hef oft lýst því sem svo að þriðja áætlunartímabilið sé meira eins og minnispunktar en raunveruleg plön um aðgerðir. En varðandi það sem snýr að slagnum við verðbólguna þá er svo stutt inn í þann tíma sem við horfum á hér í þessu plaggi að það má eiginlega segja að sá slagur sé svolítið innan skekkjumarka hvað hinar eiginlegu framkvæmdir varðar. Við verðum að líta á þetta plagg sem hefðbundna áætlun eins og hún væri komin fram án þess að verðbólgusjónarmiðin ættu við en með þau auðvitað í huga. En við þekkjum það bara að hliðrum framkvæmda er með þeim hætti að alltaf er einhverju skákað til.

Ef við byrjum á höfuðborgarsvæðinu er það auðvitað galli að endurskoðun samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins liggur ekki fyrir núna þegar þetta mál er rætt. En sú vinna mun örugglega liggja fyrir áður en málið verður tekið hér til 2. umræðu þannig að þá höfum við gleggri mynd og þeir nefndarmenn sem sitja í umhverfis- og samgöngunefnd sjá með skýrari hætti hvernig málum vindur þar fram.

En af því að hæstv. innviðaráðherra hefur verið duglegur að koma upp í andsvör hingað til, eða hvort sem hann kemur í ræðu í lok umræðunnar, þá er atriði sem ég verð að fá að nefna hér. Núna er verið, að mér heyrist, að tengja saman áform um undirbúning Sundabrautar annars vegar og það að Sæbrautarstokkur komist til framkvæmda í tengslum við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Ég sé ekki þá tengingu sem réttlætir það að mögulegur dráttur á Sæbrautarstokki — sem hefur auðvitað margfaldast í umfangi frá því að verðmiðinn var settur á það verkefni þegar samgöngusáttmálinn var undirritaður 2019 — og sé ekki hvaða röksemd það ætti að vera að tafir, möguleg grundvallarbreyting á Sæbrautarstokki, hafi áhrif á Sundabrautina. Það væri áhugavert, ef hæstv. innviðaráðherra hefur tækifæri til hér á eftir, að heyra um sýn ráðherrans hvað þetta tiltekna atriði varðar.

Síðan er auðvitað ekki annað hægt en að gagnrýna, á sama tíma og við tölum hér um tafir á höfuðborgarsvæðinu hvað umferðarflæði varðar, ljósastýringarmál og bætta útfærslu á þeim, að þrengingar gatna og annað slíkt viðgangist sem aldrei fyrr á þeim svæðum sem Reykjavíkurborg hefur vald yfir.

Áfram um samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Það er auðvitað galli, eins og hæstv. ráðherra kom inn á hér fyrr í dag, að framlagning frumvarpa varðandi gjaldtöku og grundvöll þeirra hafi tafist eins og raunin er. En það verður áhugavert að sjá með hvaða hætti útfærslurnar verða. Ef ráðherra hefur tækifæri til væri gott að heyra hvenær við megum eiga von á því að geta séð með hvaða hætti þessi mál verða lögð upp.

Hæstv. ráðherra spurði í andsvari áðan við Eyjólf Ármannsson, hv. þingmann Flokks fólksins, þegar var verið að ræða skiptingu vegafjár á milli svæða — ráðherra leiðréttir mig ef ég hef rangt eftir honum en ég held að ég hafi þetta efnislega rétt — hvort hann væri að leggja til að það yrði tekið af öðrum svæðum til þess að styðja við þau svæði sem hv. þingmaður, í þessu tilviki Norðvesturkjördæmis, hafði gagnrýnt að væru með lágar fjárveitingar, m.a. til Vesturlands og Norðurlands vestra, rétt um 700 millj. kr. á hvort svæði í heildina hvað stofnvegaframkvæmdir varðar á næstu fimm árum. Ráðherrann spurði hvort tillagan væri að taka af öðrum svæðum. Í þessu samhengi verður auðvitað að skoða heildarmyndina. Það má auðvitað segja svona í léttum tóni að það sé dálítið Suðurland gagnvart rest þegar þessi skipting er skoðuð á áætluninni sem hér liggur fyrir. Og þá verður auðvitað að hafa í huga þá miklu innviðaskuld sem safnaðist upp yfir áratugina vestur á fjörðum. Við erum núna að koma okkur úr skömm gagnvart því svæði hvað framkvæmdaþungann þar varðar undanfarin ár.

Síðan er mál sem ég hafði hreinlega ekki áttað mig á fyrr en nýlega sem snýr að því að hluti varaflugvallargjaldsins sé ætlaður í uppbyggingu nýrrar flugstöðvar í Reykjavík. Er það staðan og liggur sú ákvörðun fyrir eins og málið horfir við samgönguráðherra, að þeir fjármunir verði nýttir í það? Þetta hefur verið nefnt sem haganleg einkaframkvæmd, til þess að gera auðveld til fjármögnunar, á sama tíma og við horfum á mikla viðhaldsþörf og uppbyggingarþörf í tengslum við varaflugvallahlutverkið, sérstaklega vallanna á Akureyri og Egilsstöðum.

Ef við horfum á framkvæmdahluta þingsályktunartillögunnar eins og hún liggur fyrir til næstu fimm ára þá er það í raun þannig að obbinn af þeim stóru verkefnum sem eru í gangi, ef við tökum Vestfirðina a.m.k. að hluta til út fyrir sviga, eru verkefni sem áform voru um að væri í meginatriðum lokið á þessum tímapunkti. Nú er ég ekki í stöðu til að leggja spurningar fyrir hæstv. ráðherra en það verður auðvitað að skoðast og hv. umhverfis- og samgöngunefnd þarf að skoða í þessu samhengi með hvaða hætti ónýttar fjárveitingar sem ekki hefur tekist að nýta hingað til koma til ráðstöfunar og nýtingar hvað þessi verkefni varðar sem, eins og ég segi, hafa verið á áætlun með þeim hætti að þeim ætti að meginhluta til að vera lokið nú þegar.

Aðeins að lagaramma gjaldtöku. Ég hef gagnrýnt það hér í þinginu að það sé fyrirhuguð þreföld viðbótargjaldtaka umfram hina almennu í tengslum við hugmyndir um sérstaka gjaldtöku. Það er gjaldtaka í tengslum við samvinnuverkefnin, PPP-verkefnin, það er gjaldtaka í tengslum við öll jarðgöng á landinu, bæði þegar grafin og ný, og síðan eru það þessi tafagjöld á höfuðborgarsvæðinu. Það er eiginlega alveg ómögulegt, eins og ég kom inn á hér áðan, að við þingmenn sjáum ekki stóru myndina og sýnina á það með hvaða hætti ríkisstjórnin og innviðaráðherra ætla sér að leggja þessi mál fram þegar verið er að taka ákvörðun um og ræða samgönguáætlun eins og hún liggur fyrir í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég bara hvet hæstv. innviðaráðherra og væntanlega í samstarfi við fjármálaráðherra þess tíma, þó að auðvitað setji fréttir dagsins það kannski í tímabundið uppnám, til að leggja þær megintillögur fram eins fljótt og nokkur kostur er því þær skipta auðvitað verulegu máli í þessu samhengi.

Hér að endingu get ég ekki annað en haldið því til haga að það verður ekki við það búið að fjárveitingar til Vesturlands sérstaklega og Norðurlands vestra sömuleiðis, ef við horfum á gömlu svæðaskiptinguna, séu jafn snautlegar og hér er teiknað upp. Þá verður það auðvitað ekki gert nema með því að hnika fjárveitingum til og það er auðvitað eins og við blasir mjög misskipt á milli svæða eins og þetta liggur núna.