154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[17:32]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Hér er til umræðu samgönguáætlun til ársins 2038 og aðgerðaáætlun til næstu ára. Þetta málefni er mjög mikilvægt og það er mikilvægt að við vöndum okkur við þetta. Á höfuðborgarsvæðinu búa u.þ.b. tveir þriðju landsmanna. Því er reglulega haldið til haga að ríkið eyði stórum fjármunum í almenningssamgöngur enda er það gríðarlega skynsamlegt, alveg sama hvernig á það er litið. Út frá loftslagssjónarmiðum er mjög skynsamlegt að fleiri nýti almenningssamgöngur en í ljósi gríðarlegrar fjölgunar einkabíla er eitthvað sem kemur í veg fyrir að fleiri nýti sér þær. Fjölgun bíla á vegum hefur leitt af sér æ fleiri umferðarhnúta sem koma í veg fyrir að þær almenningssamgöngur sem eru til staðar hér á landi komist leiðar sinnar. Það veldur því að fleiri nota einkabíla og vítahringurinn heldur áfram.

Þessir umferðarhnútar á höfuðborgarsvæðinu hafa einnig áhrif á öryggi okkar sem búum hér. Á álagstíma liggur við að full þörf sé á því að senda þyrlu í stað sjúkrabíls á höfuðborgarsvæðinu. Á mörgum stöðum getum við svo ekki bætt við fleiri akreinum eða greitt frekar fyrir umferð og eina raunhæfa leiðin er að fækka bílum á götum en ekki fjölga eins og öll verk ríkisstjórnarinnar virðast gera. Besta leiðin til að ná því markmiði er að efla almenningssamgöngur en hér er bara ekki gert ráð fyrir því. Við fáum engar umbætur fyrr en í fyrsta lagi eftir nokkur ár og við getum ekki beðið eftir því. Við getum ekki beðið með umbætur í almenningssamgöngum. Það er alveg galið að ætla að láta almenningssamgöngur reka á reiðanum. Það einfaldlega gengur ekki upp.

Skoðum þá aðeins í hvað peningarnir sem úthlutað er í almenningsamgöngur fara. Af þeim 5,4 milljörðum sem ráðstafað er í almenningssamgöngur fara 906 milljónir í almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Reiknum þá aðeins. Til höfuðborgarsvæðisins, þar sem tveir þriðju landsmanna búa, rennur aðeins einn sjötti af því fjármagni sem eyða á í almenningssamgöngur.

Að sjálfsögðu eigum við að halda áfram fullum fetum í undirbúningi og framkvæmdum vegna borgarlínu en ætlum við í alvörunni ekki að sinna verkefninu betur? Það er löngu ljóst að við getum ekki keyrt á einkabílnum út úr þeim umferðarhnútum sem eru nú úti um allt höfuðborgarsvæðið. Það mun bara auka vandann og þess vegna verðum við að bæta í. Það er ekki bara nauðsynlegt heldur afar skynsamlegt og í raun eina leiðin sem við getum gripið til núna.

Ég verð samt að víkja aðeins að andsvörum við ræðu hæstv. ráðherra hér áðan. Okkur greinir ekki neitt á um að það er hlutverk sveitarfélaga að reka almenningssamgöngur. Á því leikur enginn vafi. Ég verð samt að telja það afar hæpið að bera saman annars vegar höfuðborgarsvæðið og hins vegar Ísafjörð og Akureyri. Það er frábært að þeim gangi vel við rekstur almenningssamgangna. Við getum samt engan veginn fært þær forsendur hingað á höfuðborgarsvæðið.

Mér sýnist hér vera mikið tækifæri til að stuðla að betri samgöngum á höfuðborgarsvæðinu strax. Það myndi skila greiðari samgöngum á höfuðborgarsvæðinu, minni útblæstri og meira öryggi en það fer lítið fyrir því tækifæri án þess að ríkið grípi gæsina.

Hvað varðar hjólaleiðir, sem ég vék einnig að í andsvörum við hæstv. ráðherra hér áðan, þá hef ég þó nokkra reynslu af því að nýta mér hjólastíga og það er ekki reynsla mín eða yfir höfuð annarra hjólreiðamanna að þessar leiðir séu greiðar eða tengist nógu vel.