154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[20:54]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Andsvar er kannski stórt orð, ætli þetta sé ekki meira meðsvar. Mig langaði bara að koma hérna upp undir lokin á þessari umræðu og taka undir með hv. þingmanni. Mörgu af því sem kom fram í þessari fyrstu flugstefnu okkar hefur okkur auðnast að koma á dagskrá og þetta er ákaflega mikilvægur hluti af því, þ.e. menntunarhlutinn. Það þarf að átta sig á því hversu mikilvægur fluggeirinn er á Íslandi og hversu stórt umfang hann hefur í hlutfalli við aðrar þjóðir, og þar af leiðandi atvinnugreinin í heild sinni, sem er auðvitað umtalsvert meira en við þekkjum á nánast nokkru öðru byggðu bóli.

Svo vil ég líka nefna, af því að hv. þingmaður fjallaði í fyrri ræðu sinni um að útgjöldin vegna varaflugvallargjaldsins væru lægri heldur en væntar tekjur, að þetta er eitthvað sem kemur mér á óvart og ég held að það sé ekki raunin. En við skulum bara fara betur yfir það og koma upplýsingum til þingmannsins og eins til nefndarinnar ef þarf.

Síðan vildi ég nefna hérna einn punkt sem margir ræddu, að þetta væri óljóst, þ.e. það væri ekkert að marka 15 ára áætlanir. Það er auðvitað þannig að við erum að tala um samgöngur sem eru gríðarlega umfangsmiklar og stórar og sum verkefni eins og Fjarðarheiðargöng taka sjö ár í framkvæmd, Sundabrautin fimm ár og kannski er undirbúningstíminn að þeim jafn langur og framkvæmdatíminn þannig að þetta eru kannski 15 ár og mikilvægt að hafa þann tíma undir. Síðan erum við með fimm ára fjármálaáætlanir sem breytast árlega og svo erum við með eins árs fjárlög sem taka af skarið um það hvaða peninga við höfum á hverjum tíma. Það er því ekkert skrýtið að það sé einhver óvissa um það hvað gerist eftir 13, 14, 15 ár.

Svo vildi ég bara í lokin þakka fyrir meira og minna jákvæðar umræður um samgönguáætlun og heilt yfir málefnalegar.