154. löggjafarþing — 13. fundur,  11. okt. 2023.

einföldun á ferli umsókna um sérstök útgjöld.

55. mál
[17:06]
Horfa

Flm. (Ingibjörg Isaksen) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um einföldun á ferli umsókna um sérstök útgjöld. Tillaga þessi er byggð á tillögu sem lögð var fram á 153. löggjafarþingi, um einföldun og ferli umsókna um sérstök útgjöld vegna barns, en er nú endurflutt með uppfærðri greinargerð.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að flýta þróun rafrænna samskipta og einfalda ferli umsókna hjá sýslumanni um sérstök útgjöld. Áhersla verði lögð á að auðvelda aðgengi milli ríkisaðila að upplýsingum og gögnum vegna umsókna um sérstök útgjöld.“

Flutningsmenn tillögunnar eru auk mín hv. þingmenn Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson og Björn Leví Gunnarsson.

Umsóknir um sérstök útgjöld geta verið erfitt og íþyngjandi ferli. Flutningsmenn telja að í samræmi við tækniframfarir ætti umsækjandi samhliða því að leggja fram kröfur um sérstök útgjöld að geta veitt sýslumanni heimild til gagnaöflunar hjá öðrum stjórnvöldum sem málið varðar. Til grundvallar þessum hugmyndum má leggja hina almennu rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, markmið hins opinbera um betri þjónustu og aukið réttaröryggi.

Kröfur hins opinbera til borgara um framlagningu fylgiskjala við málsmeðferð í málum barna eru umtalsverðar og íþyngjandi, sérstaklega á tímum þar sem stafrænar lausnir og rafræn stjórnsýsla fer vaxandi. Kerfið ætti ekki að vera til þess að ýta undir að fólk hreinlega gefist upp áður en lagt er af stað, heldur að aðstoða fólk við að sækja sér sjálfsögð réttindi. Af þessum sökum leggja flutningsmenn til að flýta ætti og hraða þróun rafrænna samskipta og auðvelda aðgengi milli ríkisaðila að upplýsingum og gögnum vegna umsókna. Sem lið í þeirri vinnu telja flutningsmenn mikilvægt að skoða hvort hægt sé að aflétta frumkvæðisskyldu málsaðila við öflun opinberra fylgiskjala og færa þá skyldu yfir á ríkið eða auka heimildir stjórnvalda til þess að staðfesta tilvist og efni upplýsinga í gegnum vefinn island.is. Samhliða verði tryggt að sýslumannsembættunum sé gert kleift að afla viðkomandi gagna með stafrænum hætti, eftir atvikum fyrir milligöngu Stafræns Íslands.

Til að útskýra betur á mannamáli um hvað þetta mál snýst þá má heimfæra þetta á það þegar einstaklingur fer í greiðslumat hjá banka. Þar er hakað í box þar sem þú veitir bankanum leyfi til að fletta þér upp á t.d. Creditinfo svo að bankinn hafi allar skulda- og eignaupplýsingar þínar á hreinu fyrir greiðslumatið. Þetta kerfi mætti innleiða hjá fleiri opinberum aðilum, t.d. sýslumanni. Ef einstaklingur ætlar að sækja um sérstakt framlag frá fyrrverandi maka, t.d. vegna tannréttinga barna þeirra, þarf til að mynda að skila inn útfylltu eyðublaði hjá sýslumanni með reikningum og kvittunum fyrir útlögðum kostnaði, fá yfirlit frá Sjúkratryggingum Íslands sem sýnir greiðsluþátttöku og yfirlýsingu tannlæknis um framvindu meðferðar. Ef ekki liggur fyrir samningur á milli og óska þarf úrskurðar þá þurfa einmitt líka að liggja fyrir launaseðlar undanfarið ár og eins skattskýrsla sem gefin er út af Skattinum og stimpluð á hverri einustu síðu. Þarna væri voðalega gott ef möguleiki væri á að haka í box um að einstaklingurinn veitti leyfi til að sýslumaður gæti flett þessum upplýsingum upp og m.a. greitt þá fyrir þá þjónustu.

Tvær umsagnir bárust um tillöguna þegar hún var lögð fram á 153. löggjafarþingi, frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og Persónuvernd hins vegar. Í umsögn sýslumanns segir, með leyfi forseta:

„Ítrekað er að sýslumaður er mjög hlynntur öllum breytingum sem kunna að einfalda málsmeðferð hjá sýslumönnum. Þá er sérstaklega tekið fram að öll sömu sjónarmið eiga við um ýmis önnur mál sem rekin eru hjá sýslumönnum, bæði samkvæmt barnalögum en eins samkvæmt öðrum lögum t.d. lögum um ættleiðingar, nr. 130/1999. Eðlilegt er að allar breytingar hvað þetta varðar taki einnig til annarra mála en beiðnir um sérstök útgjöld.“ — Því er þingsályktunartillagan uppfærð hér.

Við vinnslu málsins þarf að taka tillit til þeirra athugasemda sem bárust frá Persónuvernd um málið. Nauðsynlegt er að tryggt verði að hverjar þær breytingar sem kunna að vera gerðar við samþykkt þessarar tillögu á lögum og/eða reglugerðum fullnægi kröfum laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerðar (ESB) 2016/679. Meðal annars þarf að tryggja skýrar heimildir til vinnslu persónuupplýsinga, bæði almennra og viðkvæmra, og að heimildirnar afmarkist aðeins við upplýsingar sem nauðsynlegar eru fyrir framgang málsins. Þá þarf að tryggja að öryggi upplýsinganna sé tryggt frá fyrsta degi, ekki síst ef kemur til vinnslu í rafrænum upplýsingakerfum eða öðrum stafrænum lausnum.

Áform um breytingar á réttarfarslöggjöf varðandi stafræna miðlun gagna og stafræna birtingu eru í umsagnarferli í samráðsgátt stjórnvalda en með þeim breytingum er áætlað að breyta réttarfarslöggjöf á þann hátt að hún standi ekki í vegi fyrir að unnt sé að miðla gögnum stafrænt á milli stofnana réttarvörslukerfisins. Flutningsmenn telja að framangreind áform muni aðeins styrkja tillögu þessa frekar enda eiga stafrænar umbætur ávallt að hafa það að markmiði að kerfi verði einfaldari í notkun og notendavænni.

Hef ég nú lokið máli mínu hvað varðar þessa þingsályktunartillögu og vona að hún fái framgang og góða málsmeðferð í sinni nefnd.