154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[10:42]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Þetta er nú kannski leikrit sem hefði verið hægt að skrifa fyrir fram. Við hefðum líka getað skrifað það fyrir fram ef núverandi hæstv. fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hefði ekki mætt í dag í óundirbúnar fyrirspurnir. Þá hefðu væntanlega fulltrúar úr stjórnarandstöðunni staðið hér og sagt: Hvar er sitjandi fjármála- og efnahagsráðherra? Hvenær eigum við að fá tækifæri til að spyrja hann um álit umboðsmanns Alþingis? Hver eru næstu skref í bankasölunni? Hver er sýn hans á málið? Þetta er leikritið sem við vitum að hefði gerst ef hæstv. fjármálaráðherra hefði ekki mætt hérna í dag. Hvernig væri nú bara að við nýttum tíma þingsins vel og færum í þann dagskrárlið sem hér er fyrirskrifaður, óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra? Þá hafa þingmenn raunveruleg tækifæri til að spyrja spurninga og fá svör.