154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Rekstur og aðbúnaður Landhelgisgæslunnar.

[11:00]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það kom berlega í ljós hér á síðasta þingvetri alvarleg staða Landhelgisgæslunnar þegar þáverandi dómsmálaráðherra lagði til að seld yrði flugvél. Það liggur alveg ljóst fyrir og það sagði ég fjárlaganefnd í gær að Landhelgisgæslan getur ekki starfað áfram og sinnt sínu öryggishlutverki að óbreyttu. Það liggur alveg fyrir að það þarf að koma aukið fjármagn eða það þyrfti að selja flugvél, skip eða þyrlu. Ég hafna algerlega orðum hv. þingmanns að í tíð Sjálfstæðisflokksins hafi verið grafið undan stofnunum ríkisins, alls ekki. Við búum nú í breyttum heimi. Þar eru alvarlegar áskoranir núna á norðurslóðum þannig að hlutverk Gæslunnar hefur aldrei verið meira í íslensku samfélagi eins og einmitt núna. (Forseti hringir.) Ég hef talað fyrir því að það mætti skoða tekjur eins og skattlagningu á skemmtiferðaskip enda þarf Gæslan að sinna ýmissi þjónustu við þau.