154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

bann við fiskeldi í opnum sjókvíum.

5. mál
[11:34]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var falleg og hástemmd ræða sem ég get að mjög stórum hluta tekið undir. Ég hef kallað eftir afstöðu þingmanna lengi, að hér stæðu fleiri og tjáðu sig um hina hömlulausu og erfiðu stöðu sem hefur verið í þessum iðnaði undanfarið en þó við litlar undirtektir. En ég er ofsalega fegin að fólk er að vakna.

Ég kem aðallega upp til að spyrja þingmanninn, af því að um efnisleg atriði virðumst við vera nokkuð sammála. En nú er það svo að hæstv. matvælaráðherra hefur og er að vinna gríðarlega mikilvæga vinnu og það að koma fram með mál um að stöðva atvinnugrein — það er búið að fjárfesta gríðarlega í þessari atvinnugrein. Það eru byggðir í landinu sem byggja atvinnulíf sitt alfarið á þessari atvinnugrein. Er það réttlætanlegt? Ég veit það ekki. En er það réttlætanlegt og finnst hv. þingmanni það standast og er það gott fordæmi að banna einhverja atvinnugrein sem þú ert ósammála? Og hvaða fordæmi erum við þá að setja inn í framtíðina þegar það verða komin ný stjórnvöld sem hafa aðra afstöðu til umhverfis og náttúru eða mannréttinda eða hvað það er, að við getum út frá geðþótta bannað bara eitthvað? (Gripið fram í: Með lögum?) Ég held að við séum algerlega að vinna rétt í rétta átt og ráðherra hefur skilað bæði gögnum og ítrekað komið fram með þá afstöðu sína að staðan sé óboðleg og gerir miklar kröfur á iðnaðinn. En mig langar að heyra afstöðu hv. þingmanns til þessa.