154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

bann við fiskeldi í opnum sjókvíum.

5. mál
[11:41]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég er fullkomlega sammála hv. þingmanni. Það má alls ekki bitna á fólkinu í þessum byggðum, það bara má ekki gera það og það á ekki að þurfa að gera það. Það er ótrúlega vond byggðastefna, og við gerum þessi mistök trekk í trekk, að einhvern veginn velti það á einum atvinnuvegi hvort heilt byggðarlag fari á hliðina. Við megum ekki gera það. Við megum ekki setja öll eggin í sömu körfu. Það er bara vond byggðastefna.

Þess vegna segi ég í þingsályktunartillögunni að samhliða því að banna opið sjókvíaeldi eigi ríkisstjórnin að efla nýsköpun og fjölbreytt og umhverfisvæn atvinnutækifæri í byggðarlögum sem byggja afkomu sína á fiskeldi í opnum sjókvíum. Ef við gerum þetta, sem við getum alveg gert, — og mín hugsun er sú að okkur beri skylda til að stoppa þetta — þá eigum við að koma inn með fjármagn og við eigum að finna leiðir til að koma til móts við fólk á þessum svæðum til að byggja upp sjálfbærar og grænar atvinnugreinar og til þess að tryggja að fólk geti lifað á þessum svæðum með reisn og það séu atvinnutækifæri þarna. Það er gríðarlega mikilvægt. Ég held að það sé alveg eitthvað sem við getum gert. Það er bara ákvörðun um að setja fjármagn og „rísorsa“ í að gera það. Ég hef engar áhyggjur af því. En að halda áfram með status quo núna, að halda áfram með sjókvíaeldið, minnka það væntanlega eitthvað aðeins eins og ég ætla að sé hugsunin hjá hæstv. matvælaráðherra, að þessar reglur geri það að verkum að það þurfi að minnka — ef við tökum frekari áhættu, af því að þessi grein er að deyja út hvort sem er, hvað gerist þá þegar hún ákveður af sjálfsdáðum að fara? Þá lenda þessi byggðarlög í sömu krísu og þau yrðu í ef við myndum bara loka á þetta núna. (Forseti hringir.) Við verðum að gera þetta. Ég held að við höfum ekki tíma til að fara í enn eina (Forseti hringir.) tilraunastarfsemina með þetta. Við erum búin að reyna það aftur og aftur og við erum alltaf að sjá að þetta virkar ekki. Það er ekki hægt að stunda sjókvíaeldi í opnum sjókvíum án þess að það verði gríðarlegur skaði fyrir umhverfið. Og þá þurfum við náttúrlega bara að kunna að segja stopp.