154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:53]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil segja það við andsvari hv. þingmanns að ég held að nákvæmlega það sem kemur fram í þessari skýrslu sé þörfin á að við tökum ákvarðanir sem byggjast á gögnum og forgangsröðum áherslum. Ég nefndi hér áðan í fyrsta lagi hvað við höfum verið að gera þegar kemur að barnafjölskyldum og húsnæðismálum, sem er risaþáttur í að draga úr fátækt. Ég fór ekki út í það sem er fram undan eins og t.d. endurskoðunina á örorkukerfinu, en út frá þessari skýrslu er mjög mikilvægt að við beinum sjónum að þeim hópi til að draga úr fátækt.

Hv. þingmaður nefnir hér lífeyrissjóðakerfið. Við sjáum það að eldra fólki sem býr við fátækt hefur fækkað á undanförnum 20 árum. Það er m.a. vegna uppbyggingar lífeyrissjóðakerfisins og þeirra kerfisbreytinga sem gerðar voru 2016 á almannatryggingum eldri borgara þannig að ég held einmitt að það sé mjög mikilvægt að við byggjum okkar aðgerðir gegn fátækt á gögnum. Þetta snýst ekki um að bíða í tvö ár, eins og hv. þingmaður orðar það, heldur erum við að halda þessari vinnu áfram til að geta jafnóðum fengið bestu mögulegu gögn til að geta tekið bestu mögulegu ákvarðanirnar.