154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:54]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar Flokkur fólksins var stofnaður 2016 þá var það eftir að ég hafði fengið að líta skýrslu UNICEF á Íslandi sem sýndi fram á að 9,1% íslenskra barna liði hér mismikinn skort. Ef við tækjum lægsta mögulega samnefnara af skýrslum sem hafa komið út að undanförnu þá er þessi tala núna á bilinu 13,1–15% eins og kemur reyndar fram í skýrslunni. Ef það er raunverulegt að fátækt íslenskra barna hafi vaxið úr 9,1%, og við tökum lægsta samnefnara, í 13,1%, þá hefur fátækt íslenskra barna vaxið um 44% í tíð þessarar ríkisstjórnar. Hversu mikið þurfum við að vera með skýrslur og tölur á blaði til að grípa inn í og hreinlega lyfta þessu fólki upp úr fátækt og draga það úr röðum fyrir framan matargjafastofnanir að biðja þar um ölmusu?

Ég bara verð að segja það, virðulegi forseti, mig langar líka að nefna þetta þriðja skattþrep sem svo gjarnan hefur verið nefnt hér, ég er að njóta þess líka. Þetta þriðja skattþrep sem mikið var básúnað um og nýtist best fátæku fólki nýtist mér og öllu hátekjufólki líka. (Forseti hringir.) Hefði ekki verið nær í rauninni að einskorða þetta þriðja þrep við þá sem væru undir fátæktarmörkum?